Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, fékk í dag afhentan undirskriftarlista með nöfnum tæplega fjögur þúsund Reykvíkinga þar sem þess er krafist að Vin á Hverfisgötu verði ekki lokað.
Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið í nær 29 ár. Borgin tók við rekstrinum fyrir ári síðan en lokunin er liður í hagræðingartillögum.
Það var Sirrý Arnardóttir, fjölmiðlakona, sem afhenti listann skömmu fyrir borgarstjórnarfund sem hófst klukkan 12 á hádegi.
„Ég á vini í Vin og er Reykvíkingur sem vill að við sýnum mennsku og að við ráðumst ekki á fólk sem minna má sín. Það þarf að eiga athvarf í Vin og er að glíma við geðrænar áskoranir og félagslega einangrun en hefur haft Vin í mörg ár sem sitt heimilislega athvarf, þar sem það á vináttu og stuðning vísan,“ segir Sirrý í samtali við mbl.is.
Hún segir rekstur heimilisins ekki kostnaðarsaman en úrræðið geti skipt sköpum fyrir þá sem þurfa á því að halda. „Þetta er lífsspursmál.“
Spurð hvort hún sé bjartsýn á að ákvörðun um að loka Vin verði snúið við, kveðst Sirrý hvorki bjartsýn né svartsýn.
„Ég held að þetta snerti inn í kviku svo margra að við munum ekki láta staðar numið. Að loka Vin má ekki gerast. Þetta bara má ekki gerast.“
Hvað gerist ef þessu úrræði er lokað?
„Þá er bara stór hópur sem að þangað kemur alltaf sem að lokar sig inni og er félagslega einangraður sem aldrei fyrr, missir þessi lífsgæði og við erum bara þannig samfélag að við höfum alveg efni á því að bjóða upp á þessi lífsgæði fyrir fólk með geðrænar áskoranir. Við erum líka alltaf að tala um að við þurfum að minnka fordóma gagnvart fólki með geðræna sjúkdóma og við eigum að standa með þeim.“
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, segir algjörlega ólíðandi að hagræðingartillögurnar skyldu bitna á Vin á meðan einungis sé fellt út eitt stöðugildi í miðlægri stjórnsýslu hjá borginni.
Í tillögu Flokks fólksins, sem lögð var fyrir borgarráð þann 8. desember, segir: „Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir vettvang þar sem það nýtur félagsskapar. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár. Vin er stórum hópi gríðarlega mikilvægur staður enda er þar góð og mikil starfsemi.“
Þá kemur einnig fram að fulltrúum flokksins finnist að ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari. Það sé viðkvæmur hópur sem sæki Vin og margir líti á staðinn sem sitt annað heimili.
„Flokkur fólksins lagði strax fram tillögu um að þetta yrði endurskoðað bæði með Vin, og Tröð og Stíg, unglingasmiðjurnar, vegna þess að við getum ekki liðið það að það sé verið að höggva í okkar viðkvæmustu hópa, spara á þessu sviði þar sem að er bein þjónusta við fólk á meðan að það er rétt aðeins verið að klípa í miðlæga stjórnsýslu, þar á aðeins að spara um eitt stöðugildi,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.