„Algjör hryllingur fyrir stúlkur og konur“

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra fordæmir aðför Talíbana gegn réttindum …
Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra fordæmir aðför Talíbana gegn réttindum kvenna til náms. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er raunverulega sársaukafullt að horfa upp á þessa hrikalegu þróun,“ segir Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra um ástandið í Afganistan en talíbanar bönnuðu konum að stunda háskólanám þar í landi í gær.

Var tilkynnt í gærkvöldi að konum væri hér með ekki heimilað að stunda nám við háskóla og kom þetta fram í bréfi sem ráðherra æðri mennt­un­ar sendi frá sér. Þá seg­ir ráðherr­ann að ákvörðunin gildi þar til annað verður ákveðið. 

Í er­lend­um fjöl­miðlum kemur fram að bú­ist sé við því að þetta muni taka gildi þegar í stað. 

Hversu langt er hægt að ganga?

Spurð hvað Ísland og önnur lönd geti gert til að sporna gegn þessari aðför gegn réttindum kvenna segir Þórdís að það fari fyrst og fremst í gegnum alþjóðastofnanir og samtök. Hún tekur þó fram að alþjóðakerfinu séu takmörk sett en að mikilvægt sé að fordæma gjörðir talíbana.

„Staðan í Afganistan er einfaldlega algjör hryllingur fyrir stúlkur og konur. Hversu langt er hægt að ganga í að brjóta á réttindum fólks?“

Hún segir það ótrúlegt hve fljótt er hægt að fara til baka í mannréttindum og kvenréttindum. 

„Þeir eru enn að ganga lengra og lengra í að brjóta grundvallarréttindi stúlkna og kvenna og það er ómögulegt að segja hversu langt þeir eru tilbúnir að ganga í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka