Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja 215 milljónum króna af fjárlögum næsta árs til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilsugæslustöðum um allt land.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að að markmiðið sé að jafna aðgengi að bráðaþjónustu um allt land og gera heilbrigðisstofnunum betur kleift að veita þessa mikilvægu þjónustu á starfssvæðum sínum.
Er ákvörðunin byggð á tillögum viðbragðsteymis um bráðaþjónustu sem sett var saman í júní vegna neyðarástands á bráðamóttöku Landspítalans og víðar í heilbrigðiskerfinu.
Fram kemur í tilkynningunni að úthlutunin komi til viðbótar tæpum 114 milljónum króna sem úthlutað var til heilbrigðisstofnana fyrr á þessu ári vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsum.