Efling færist nær SA með nýju tilboði

Efling og SA funda í húsi ríkissáttasemjara á morgun.
Efling og SA funda í húsi ríkissáttasemjara á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling hefur lagt fram nýtt tilboð til Samtaka atvinnulífsins (SA) um kjarasamning til 15 mánaða.

Samningsforsendur eru þær að lægstu taxtalaun verði hækkuð til að endurheimta kaupmáttinn sem tapast hefur frá síðustu launahækkun, sem var í apríl 2022.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

Krefst hlutdeildar launa í hagvexti og afkomu

Einnig krefst Efling þess að kjarasamningurinn verði framhald lífskjarasamninganna í þeim skilningi að hækkanir lægstu launa séu ekki mikið lægri en hækkanir hærri launa.

Efling vill að hlutdeild launa í hagvexti og góðri afkomu fyrirtækja sé tryggð og það sé tekið tillit til „óvenju“ mikils húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.

Efling vill að lægsti taxti hækki um 42.500 krónur og aðrir launaflokkar taki hækkunum í launatöflum miðað við þann taxta þar sem staðlað bil milli launaflokka verður 0.58%.

Frá síðasta fundi Eflingar og SA í húsi ríkissáttasemjara.
Frá síðasta fundi Eflingar og SA í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Taxtar hækki um 15-17%

Í tilboðinu segir einnig að laun þeirra sem ekki eru á kauptöxtum hækki um 42.500 krónur. Að auki vill Efling að 15.000 króna flöt framfærsluuppbót leggist ofan á laun.

Í skýringum tilboðsins segir að minnsta krónutöluhækkunin verði 57.500 krónur og mesta hækkunin verði 65.558 krónur. Þar með hækka taxtar hlutfallslega um 15,56-16,57% miðað við fyrri taxta.

Efling segir að með þessu tilboði víki félagið frá fyrri kröfugerð og nálgist verulega sjónarmið SA. Vonast forsvarsmenn Eflingar til þess að það takist að undirrita kjarasamning fyrir jól.

Samningafundur SA og Eflingar fer fram klukkan 9 í fyrramálið í Karphúsinu, þar sem tilboð Eflingar verður kynnt nánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka