Hringsólaði yfir Djúpinu og bjargaði jólunum

Flugstjórinn tók átta hringi.
Flugstjórinn tók átta hringi.

Ragnar Friðrik Ragnars, flugstjóri Icelandair, þurfti að hringsóla að minnsta kosti átta hringi yfir Mjóafirði í innanverðu Ísafjarðardjúpi í dag, á meðan hann og Kristján Orri Magnússon aðstoðarflugmaður biðu eftir tækifæri til þess að lenda á Ísafirði.

Mikill éljagangur var fyrir vestan og skyggnið slæmt og því stóð biðflug þeirra yfir í um 45 mínútur. Spurður hvort hann hafi þurft að hringsóla svona lengi áður svarar Ragnar því játandi.

„Maður hefur þurft að gera þetta annað slagið. Við vorum kannski þrjóskari í dag,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Hann lýsir fyrir blaðamanni hvernig ástandið var tvísýnt, en þegar veðrið virtist loks vera að skána bættist í éljaganginn.

Sérstaklega gleðilegt

„Sem betur náðum við að stinga okkur á milli élja,“ segir Ragnar léttur.

Ragnar segist aðspurður ekki hafa fundið fyrir meiri þrýstingi en venjulega, á að lenda flugvélinni, nú þegar hátíðarnar eru á næsta leyti.

„Við viljum á hvaða tíma árs sem er reyna að koma farþegum okkar á áfangastað, það er nú alltaf þannig. En það er sérstaklega gleðilegt þegar þetta tekst í kringum jólin, þegar allir eru að reyna komast til sinnar fjölskyldu fyrir hátíðarnar.“

Allir komust til Ísafjarðar, heilu og höldnu.
Allir komust til Ísafjarðar, heilu og höldnu. Ljósmynd/Brynja Huld Óskardóttir

Auka birgðir af eldsneyti

„Maður skynjar það alltaf að fólk er voðalega glatt þegar það kemst á áfangastað örugglega. Sérstaklega fyrir vestan. Því miður þá er þetta frekar ótryggt stundum með að komast vegna veðurs. Fólk er voðalega glatt þegar þetta gengur upp.“

Ragnar segir að stundum létti ekki veðrinu og þá þurfi að snúa til baka til Reykjavíkur. Biðflug geti aðeins varað í þann tíma sem eldsneytisbirgðir leyfi og sem betur voru í dag teknar birgðir af eldsneyti.

„Spáin var þannig í dag að við tókum auka eldsneytisbirgðir með okkur, svo við hefðum möguleika á því að bíða. Við áttum nóg í handraða til að hanga yfir þessu.“  

Ragnar og Kristján hlutu hrós dagsins á Twitter frá Brynju Huld Óskardóttur sem var gríðarlega fegin að komast til Ísafjarðar. 

Flugvélin var jólasleði

„Ég held að það hafi enginn búist við því að það yrði flogið, en svo var þetta alger fagmaður. Hann fann einhvern lognblett yfir Reykjanesi, það var ekki einu sinni hristingur í vélinni,“ segir Brynja Huld í samtali við mbl.is.

Þegar flestir voru búnir að missa vonina og héldu að Ragnar væri að fara að tilkynna að vélinni yrði snúið við, fengu farþegarnir gleðifréttir. 

„Við fengum þær jákvæðu fréttir að þeir ætluðu að láta á þetta reyna. Það var ekkert skyggni, en allt í einu flaug hann fyrir Arnarnesið og inn fjörðinn. Hann er jólasveinninn og flugvélin var jólasleðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka