„Ljóst að tjónið er mikið“

Veðurtepptir ferðamenn koma að BSÍ eftir flutning með rútum frá …
Veðurtepptir ferðamenn koma að BSÍ eftir flutning með rútum frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Icelandair hafa verið kallaðir úr fríi til þess að greiða úr þeim vanda sem skapaðist í kjölfar lokunar Reykjanesbrautar. Fjárhagslegt tjón flugfélaga og farþega er mikið.

Reykjanesbraut var lokað á mánudaginn og úr varð að öllu flugi var aflýst og fjöldi farþega sat fastur á flugvellinum án gistingar. 

„Eiga rétt á einhverjum bótum“

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, ræddi við mbl.is.

Spurður hvort Icelandair muni sækjast eftir bótum vegna þessa segir hann: „Það er of snemmt að segja til um það. Það er ljóst að tjónið er mikið fyrir flugfélagið og farþega.“

Eiga farþegar rétt á bótum vegna aukakostnaðar sem þeir verða fyrir vegna þessa?

„Farþegar eiga rétt á einhverjum bótum. Við höfum verið í samskiptum við farþega um það.“

Reynt er að koma hlutunum í réttan farveg að sögn Guðna og hefur aukamannskapur verið kallaður til. 

„Við höfum fengið flugvélar úr leiguverkefnum inn í flotann og leigt tvær breiðþotur að utan. Allt til þess að rétta úr áætluninni. Við höfum einnig verið að kalla til fólk sem ekki hefur verið á vakt. Það hefur verið góð svörun og fólk lagst á árarnar til þess að hjálpa farþegum,“ segir Guðni.

Ekki eru til fordæmi fyrir því að lokun Reykjanesbrautar raski …
Ekki eru til fordæmi fyrir því að lokun Reykjanesbrautar raski flugumferð eins og hún gerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leit um tíma út fyrir að Reykjanesbrautin gæti opnað

Má ekki segja að þessar aðstæður hafi skapast vegna einhvers samskiptaleysis milli Vegagerðarinnar og flugvallarins?

„Við horfum á veðrið varðandi flugvöllinn og hvort hægt sé að fljúga. Þetta var vont veður en það leit út fyrir að væri flugfært. Ég man ekki eftir því að þessi staða hafi komið upp áður, að það sé fært um flugvöllinn en Reykjanesbrautin ekki fær. Við þurfum að skoða þetta, bæði Icelandair í samstarfi við Isavia og Vegagerðina. Og vera í frekara sambandi við Vegagerðina og fleiri aðila um hvernig er hægt að halda Reykjanesbrautinni opinni.“

„Auðvitað var Vegagerðin allan tímann að reyna að halda henni opinni. Svo það leit út fyrir að hún myndi opna en gerði það ekki.“

Því miður erfitt að svara farþegum

Margir hafa kvartað undan slæmri upplýsingagjöf. Áttuð þið erfitt með að anna því?

„Þegar svona kemur upp, þá er gríðarlega mikið magn af skilaboðum og símtölum sem berst okkur. Því miður hefur verið álag og erfitt að sinna öllum. En eins og ég segi, þá hefur stærsti hlutinn fengið nýja ferðaáætlun,“ segir hann og bætir við að mest áhersla sé lögð á það.

„Í Keflavík kom upp sú staða að starfsfólk komst ekki á staðinn. Þetta var erfið staða. Vonandi náum við sem fyrst að leysa úr áætlunum allra farþega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert