Sjálfboðaliði látinn fara

Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskyldhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskyldhjálpar Íslands. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir sjálfboðaliða sem setti inn facebookfærslu þess efnis að Íslendingar á umsækjendalistanum ættu að ganga fyrir í úthlutun á mataraðstoð í dag hafa verið látinn fara.

Ásgerður Jóna kallar enn fremur eftir því að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem gagnrýndi færsluna, mæti í matarúthlutun og sjái hvernig starfið fer fram.


Í færslu Fjölskylduhjálpar Íslands á Reykjanesi segir að vonast sé til þess að úthlutun geti farið fram í dag ef veður leyfi en að Íslendingar á umsækjendalista gangi fyrir. Færslan hefur verið tekin út.

Færslan sem sett var inn af Fjölskylduhjálp Íslands Reykjanesi.
Færslan sem sett var inn af Fjölskylduhjálp Íslands Reykjanesi.

Ásgerður Jóna segir sjálfboðaliðann sem setti inn færsluna hafa verið látinn fara þar sem grunngildi Fjölskylduhjálpar Íslands hafi verið brotin, það er að hjálpa öllum óháð kyni og uppruna.

Þessi sjálfboðaliði sem lét færsluna inn, það er búið að láta hann fara. Þetta er hræðilegt að hún skyldi hafa gert þetta þar sem ef einhver hjálparsamtök eru búin að vinna fyrir fólk af erlendu bergi brotið þá erum það við. Í venjulegri úthlutun eru útlendingar í miklum meirihluta. Þegar við úthlutuðum frá 1. mars til 1. september var 7.000 matargjöfum úthlutað og allt til útlendinga,“ segir Ásgerður.

Hvetur Björn Leví til að mæta á staðinn

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er meðal þeirra sem gagnrýndu færsluna í ummælum og segir hana brot á stjórnarskrá Íslands.

„Ekki trúa mér, skoðið bara stjórnarskrána. Þetta er mismunun,“ segir Björn Leví.

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgerður segir að það eigi ekki af þeim að ganga og hvetur fólk eins og Björn Leví til þess að mæta í fjölskylduhjálp í úthlutun.

„Björn Leví hefur aldrei komið upp í Fjölskylduhjálp. Hvernig væri að hann kæmi einu sinni á úthlutunardegi og sæi hvernig þetta er. Þeir gera það ekki og eru með alls konar yfirlýsingar,“ segir Ásgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka