Vegagerðin skoðar lokanir á Suðurnesjum

Lokun Reykjanesbrautarinnar olli mörgum vandræðum.
Lokun Reykjanesbrautarinnar olli mörgum vandræðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin skoðar nú hvort bregðast hefði mátt öðruvísi við þeim veðuraðstæðum sem komu upp um helgina en þær leiddu meðal annars til þess að Reykjanesbrautinni var lokað stóran hluta af mánudeginum og þriðjudeginum vegna ófærðar.

Fjölmargir farþegar urðu strandaglópar í Leifsstöð með tilheyrandi vandamálum og var fjöldahjálparstöð opnuð í íþróttahúsinu við Sunnu­braut í Reykja­nes­bæ.

Þá hefur innviðaráðuneytið sett á laggirnar hóp sem skipaður er fulltrúum frá ráðuneytinu, Vegagerðinni, almannavörnum og lögreglunni á Suðurnesjum, sem hefur það markmið að rýna í þennan atburð.

Sjaldgæft að brautinni sé lokað

Í samtali við mbl.is segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, að sjaldgæft sé að Vegagerðin þurfi að loka Reykjanesbrautinni og þegar til þess komi sé það yfirleitt ekki í lengri tíma, líkt og í gær og á mánudag. 

Voru þetta fordæmalausar aðstæður?

„Já ég held það, ofankoma, skafrenningur og síðan stóð þetta veður óvenjulengi. Og við höfum lokað Reykjanesbrautinni en í miklu styttri tíma og þá aðallega vegna mikils vinds, og þá vindur og mikil hálka sem fer saman. En við höfum ekki lent í svona mikilli snjókomu, alla vega ekki upp á síðkastið.“

Ekki vont veður þar sem myndavélar voru

Ef litið var á vefmyndavél Vegagerðarinnar í gær, sem staðsett er við Reykjanesbrautina, var ekki að sjá að mikil ófærð væri á veginum. 

„Vefmyndavélarnar sýna ekki alla Reykjanesbrautina og sýna ekki aðstæður nema bara á þeim stað þar sem þær eru. Á þessum stað á Reykjanesbrautinni þar sem vefmyndavélin er voru ekki eins slæmar aðstæður. Við vorum með tugi bíla fasta á Grindavíkurveginum, þar sem fólk þurfi að yfirgefa bílana sína, út af veðrinu og ástandinu.

Þegar við opnuðum síðan Reykjanesbrautina í klukkustund á mánudagskvöld – eftir klukkutíma voru bílar lentir í vandræðum og farnir að stoppa og festast. Þannig að ástandið var ekki sérlega gott. Ein af rútunum sem við vorum að reyna að ferja inn á milli, þó að það væri lokað, fauk út af veginum. Sem segir nú sína sögu.“

Hefði verið hægt að gera eitthvað öðruvísi?

„Við erum að skoða það bara mjög gaumgæfilega í kjölfarið – hvort við höfum einhverjar leiðir til þess að svona ástand skapist ekki, því við viljum það ekki. Okkar hlutverk er náttúrlega að halda vegum opnum. Þannig að við þurfum að fara vel yfir þetta og sjá hvort við getum ekki bætt úr einhverju og forðast þetta.“

Ákvörðun tekin í samráði við aðra

G. Pétur bætir þó við að ákvörðunin um að loka brautinni liggi ekki eingöngu hjá Vegagerðinni, almannavarnir hafi til að mynda stjórnað aðgerðunum. 

„Við vinnum þetta allt saman í samráði og samvinnu við lögreglu, björgunarsveitir og almannavarnir. Þeir segja sína skoðun á stöðunni og við auðvitað tökum mark á því.“

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri var fjarverandi frá vinnu og veitti því ekki viðtal vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert