Hagstofa Íslands verður lokuð á milli jóla og nýárs. Lokað verður frá 24. desember en skrifstofan opnar 2. janúar 2023 sökum jólafrís starfsmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.
Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri segir fríið vera árangursmiðað og leið til að verðlauna starfsmenn fyrir vel unnin störf fyrir hátíðirnar sem er oft mikill álagstími fyrir starfsmenn Hagstofu Íslands.
Hún tekur þó fram að öll starfsemi sé ekki lögð niður og að hluti starfsmanna verði enn að störfum yfir hátíðarnar þó að skrifstofan verði lokuð.
„Þetta er til að gefa starfsmönnum almenna viðurkenningu fyrir góða frammistöðu. Það er löng hefð fyrir því hjá okkur að við ljúkum öllum útgáfum fyrir jól. Það hefur komið í ljós að notendur eru flestir í fríi á milli jóla og nýárs og stjórnsýslan í öðrum takti. Það er mikill álagstími hjá okkur fyrir jól.“
Hún segir að þetta sé ekki alltaf gert á þennan máta en að þetta sé hluti af því að aðlagast breyttu þjóðfélagi. Hagstofan hefur verið lokuð á milli jóla og nýárs undanfarin ár en sem dæmi var hún lokuð á milli jóla og nýárs árin 2021, 2020 og 2019.
Spurð hvort að starfsmenn nýti frídaga sína á milli jóla og nýárs eða hvort að þetta frí sé samningsbundið svarar Hrafnhildur því neitandi. „Í þessu tilviki er ég í raun og veru að gefa fólki frí og þetta tengist góðri frammistöðu, þetta er ekki sjálfsagður hlutur.“
Hagstofa Íslands verður lokuð á milli jóla og nýárs en opnar aftur mánudaginn 2. janúar 2023. Hagstofan óskar landsmönnum gleðilegra jóla, árs og friðar. pic.twitter.com/i0fNCSMbZ4
— Hagstofa Íslands (@Hagstofan) December 20, 2022