Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna gæsluvarðhaldsbeiðni yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um undirbúning að hryðjuverkum hér á landi. Þetta staðfestir Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður annars sakborningsins.
Þetta er í annað sinn sem að gæsluvarðhaldsbeiðni yfir mönnunum tveimur er hafnað í Landsrétti en í fyrra skiptið var gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Var þá krafist varðhaldsins á þeim grundvelli að mennirnir væru hættulegir.
Varðhaldskrafan sem Landsréttur hafnaði í dag er byggð á annarri lagagrein sakamálalaga, 2. mgr. 95. gr., sem hljóðar svo:
Einnig má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði hafnað þessari beiðni og var sá úrskurður kærður til Landsréttar á mánudaginn. Í dag staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms.
Embættið hefur þegar ákært mennina vegna málsins, en dagsetning á þingfestingu málsins liggur ekki enn fyrir að sögn Karls Inga Vilbergssonar, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara. Mönnunum var sleppt úr haldi þriðjudaginn 13. desember.