Höfnuðu tilboði Eflingar afdráttarlaust

Samninganefnd SA á fundinum í Karphúsinu.
Samninganefnd SA á fundinum í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, segir að tilboð Eflingar geti aldrei orðið grundvöllur að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins.

„Þetta var ágætis fundur með Eflingar-fólki. Þau fóru yfir á ítarlegan máta það sem þau kalla „Tilboð Eflingar til SA“. Við þurftum ekkert fundarhlé eða neitt slíkt þegar þeirri yfirferð var lokið,“ segir Halldór Benjamín í samtali við mbl.is að fundi loknum.

Fyrri samningar „eru og verða grunn­ur­inn að öll­um kjara­samn­ing­um

Hann segir að SA hafi nú þegar samið við 80.000 manns á öllu landinu. Þessir 80.000 einstaklingar hafi gengið til atkvæða með kjarasamninginn og samþykkt hann með yfirgnæfandi meirihluta.

„Þeir kjarasamningar eru og verða grunnurinn að öllum kjarasamningum sem SA munu gera í þessari samningalotu,“ segir Halldór Benjamín.

„Á þeim grunni og vegna þess trausts sem fólkið í landinu leggur á herðar Samtaka atvinnulífsins höfnuðum við tilboði Eflingar afdráttarlaust og lýstum því yfir að það gæti því miður aldrei orðið grundvöllur að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna þeirrar stefnu sem við höfum markað við 80.000 manns í kringum landið.“

Geta ekki samið við Eflingu á þessum forsendum

Eru kröfur Eflingar óásættanlegar?

„Við erum tilbúin til viðræðna við Eflingu og það er markmið okkar að ganga frá kjarasamningi og semja við Eflingu en við getum ekki gert það á hvaða forsendum sem er,“ segir Halldór.

Hann segir að forsendurnar verði að vera þær að þeir aðilar sem hafa undirritað og samþykkt kjarasamning við SA geti treyst því að SA semji ekki eitthvað allt annað við annan hóp eins og Eflingu.

„Í þessu er ómöguleiki fólgin og yfir þennan ómöguleika fórum við yfir með samninganefnd Eflingar í dag og lýstum því yfir að við værum tilbúin að halda þessum viðræðum áfram á grundvelli sama kostnaðarmats og SGS samningurinn kveður á um.“

Vonast til þess að semja fyrir áramót

Halldór útlokar ekki að samningar náist fyrir áramot og segist vona að svo verði. 

„Ég skynja mjög sterkt ákall frá Eflingar-fólki þess efnis að samninganefndin gangi frá kjarasamningi við SA þannig hægt sé að ganga frá afturvirkninni og greiða út þær hækkanir sem þegar eru umsamdar til fólks í byrjun janúar,“ segir Halldór.

Í Karphúsinu í dag vakti trefill Halldórs Benjamíns athygli en hann er búinn að vera veikur síðustu daga.

„Hvorki ég né starfsfólk Samtaka atvinnulífsins kveinkum okkur yfir því. Þetta er starfsvettvangur sem við kusum okkur. Þetta er starfsvettvangur sem við njótum okkar á og við hlökkum til að mæta til vinnu hvern einasta dag,“ segir Halldór Benjamín.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf fundar í morgun.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf fundar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert