Hvetur landsmenn til að láta flugeldana eiga sig

Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir að sögn Umhverfisstofnunar.
Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir að sögn Umhverfisstofnunar. mbl.is/Hari

Umhverfisstofnun biðlar til almennings að halda áfram að fækka flugeldum, en stofnunin segir að það sé til mikils að vinna fyrir umhverfið og heilsuna.

Stofnunin segir í tilkynningu, að flugeldar séu aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og þörfin fyrir flugelda fari minnkandi með nýjum hugsunarhætti.

„Íslendingar eru nú mun meðvitaðri um þessi skaðlegu áhrif flugelda. Flestir huga að því að endurmóta sínar áramótahefðir þannig að allir geti tekið þátt án þess að heilsa manna og umhverfis hljóti skaða af,“ segir í tilkynningunni.

Umhverfisstofnun spyr svo: „Hvað er hægt að gera til að halda umhverfisvænni áramót?“

Svarið lætur ekki á sér standa, því tekið er fram að besta leiðin sé að sleppa flugeldum alveg og leyfa öðrum hefðum að fá stærra hlutverk í staðinn.

Þá segir, að fyrir þá sem vilji stilla notkun í hóf þá væri sniðugt að ræða við sinn áramótahóp og ákveða hver kaupir flugelda fyrir hópinn ár. Þannig sé hægt að minnka magnið sem er skotið upp.   

„Gefum gömlum- og nýjum hefðum stærra hlutverk í áramótahaldinu okkar. Við Íslendingar eigum ríkar hefðir sem gera gamlárskvöld sérstakt óháð flugeldum. Sumar fjölskyldur heimsækja brennur, aðrar setja sér áramótaheit og enn aðrar syngja burt árið – eða öskra það burt,“ segir Umhverfisstofnun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert