Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur gefið út breytingu á reglugerð um löggiltar iðngreinar. Löggilding 16 iðngreina er ýmist felld niður eða þær sameinaðar öðrum iðngreinum. Þær eru:
Feldskurður, glerslípun og speglagerð, hattasaumur, hljóðfærasmíði, klæðskurður karla (sem sameinast klæðskurði), leturgröftur, myndskurður, skósmíði (sameinast skósmíðaiðn), skóviðgerðir (sameinast skósmíðaiðn), málmsteypa, mótasmíði, skipa- og bátasmíði (sameinast húsasmíði), stálskipasmíði (sameinast stálsmíði), stálvirkjasmíði (sameinast stálsmíði), almenn ljósmyndun (sameinast ljósmyndun) og persónuljósmyndun (sameinast ljósmyndun). Jafnframt er „klæðskurði kvenna“ breytt í „klæðskurð“.
„Við höfum fundað með stjórnvöldum og mótmælt þessu. Það hefur verið mikill samhljómur á milli okkar og Samtaka iðnaðarins gegn þessu,“ segir Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður vélstjóra og málmtæknimanna. Í félaginu eru m.a. skipa- og bátasmiðir. „Við viljum meina að ef maður sem ekki kann að smíða skip út stáli eða tré gerir það þá geti verið lífshættulegt að fara þar um borð.“
Guðmundur segir sagt að Ísland sé að fylgja Evrópu í þessum breytingum. „En við erum að fara í þetta þegar Evrópa er að bakka út úr þessu. Þjóðverjarnir fengu t.d. alls konar „iðnaðarmenn“ yfir sig sem voru með einhverja stimpla en litla menntun.“