Ríkið eigi ekki að ganga lengra með frídaga

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkið eigi ekki að ganga …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkið eigi ekki að ganga lengra en almennur vinnumarkaður í að veita frí. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Almennt þykir mér að ríkið eigi ekki að ganga lengra en almennur markaður í að veita auka frídaga. Þegar slík tilvik koma upp vakna ákveðnar spurningar um það hvort fjárheimildum sé ofaukið.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um auka frí sem starfsmenn Hagstofunnar fá á milli jóla og nýárs.

Eins og greint var frá í gær verður Hagstofa Íslands lokuð á milli jóla og nýárs og fær meirihluti starfsmanna jólafrí frá 24. desember og fram til 2. janúar á næsta ári. Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri sagði í samtali við mbl.is í gær að þetta væri gert til að verðlauna starfsmenn og til að aðlagast breyttu þjóðfélagi.

10 fleiri auka frídagar

Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi hjá Samtökum atvinnulífsins, benti á það í tísti á Twitter að á opinberum starfsvettvangi væri í raun sex dögum lengra orlof en á almennum vinnumarkaði.

Með því bendir hann á að með þeim fjórum frídögum sem bætast við á milli jóla og nýárs sé tíu daga munur á orlofi starfsfólks Hagstofunnar og hjá fólki á hinum almenna vinnumarkaði. 

Konráð sagði einnig í samtali við Vísi í gær að vinnutímastyttingin sem unnið hefur verið að á síðustu árum hafi einnig verið miklu meiri hjá hinu opinbera.

Verða að halda sig innan fjárheimilda

„Forstöðumennirnir þurfa að taka ákvarðanir um sín starfsmannamál og að sama skapi halda sig innan fjárheimilda,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is og bendir á að auka frídagar séu aukin kjör ofan á samningsbundin kjör starfsmanna. 

Ef um sé að ræða útbreidda framkvæmd meðal opinbera stofnanna þurfi að taka það með í reikninginn varðandi skekkju í kjörum á milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera.

„Auðvitað þekkjum við til þess að við sérstakar aðstæður komi fyrir að forstöðumenn veiti auka frí. Það getur verið eftir miklar álagstarnir eða að það sé mat forstöðumanna að það skipti máli fyrir starfsandann. Því meira sem það svigrúm er því meiri getur þessi skekkja orðið og þá vakna upp spurningar.“

Ekki svo í pott búið

Bjarni bendir á að fjármálaráðuneytið sé ábyrgt fyrir stefnumótun í mannauðs- og kjaramálum ríkisins. Hann tekur þó fram að ráðuneytið miðstýri ekki öllum mannauðsmálum mismunandi ríkisstofnana. 

Hagstofan er undir ábyrgð forsætisráðuneytisins en Bjarni kveðst hafa spurt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um mál Hagstofunnar eftir að hafa frétt af fríinu á milli jóla og nýárs.

Að hans sögn segir Katrín að málið sé ekki á sama hátt í pott búið og fjallað hefur verið um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert