Agla María Albertsdóttir
Kacper Julian Ziolkowski útskrifaðist frá Menntaskólanum í Kópavogi og var með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi eða 8,33. Kacper er fæddur og uppalinn hér á landi en báðir foreldrar hans eru pólskir.
Dúxinn segir það alls ekki hafa verið stefnuna að enda hæstur en að lykillinn sé að sinna náminu jafnt og þétt.
„Það var alls ekki stefnan að dúxa. Aðalmarkmiðið var að klára en ég held að lykillinn hafi verið að ég mætti í alla tíma og gerði alltaf heimavinnuna,“ segir Kacper.
Óvíst er hvað tekur við hjá Kacper næsta haust en eftir áramót mun hann halda áfram að vinna á leikskóla en hann hefur starfað í 50% starfi með skólanum síðastliðið ár.
„Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég ætla að gera eftir áramót en er búinn að ákveða að ég muni taka mér a.m.k. hlé í hálft ár. Ef ég fer í skóla í haust ætla ég að fara í eitthvað tengt stærðfræði en mér gekk bæði best í stærðfræðiáföngunum og hafði mestan áhuga á þeim,“ segir Kacper.
Kacper hugsaði skólann fyrst og fremst eins og að mæta til vinnu en helsta áhugamálið utan skólans er að spila tölvuleiki með félögunum.
„Ég tók ekki mikið þátt í félagslífinu í skólanum en ég hugsaði þetta þannig að ég mætti skólann og lærði til þess að ég gæti átt frí heima og gert eitthvað skemmtilegt. Í frítímanum finnst mér skemmtilegast að spila tölvuleiki með vinum mínum,“ segir Kacper.