Frelsissvipti konu, nauðgaði ítrekað og beitti ofbeldi

Maðurinn var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar.
Maðurinn var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í vikunni karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir vændiskaup, frelsissviptingu, sérstaklega hættulega líkamsárás og nauðgun. Þá var honum gert að greiða konunni sem hann braut gegn, þrár milljónir króna í miskabætur.

Málsatvikum er lýst þannig í dómnum að maðurinn hafi fengið konuna til sín í þeim tilangi að kaupa af henni vændi, en hún starfaði sem vændiskona. Hann greiddi fyrir ákveðna þjónustu í ákveðinn tíma en þegar sá tími var liðinn vildi maðurinn fá endurgreitt.

Konan sagðist ekki geta endurgreitt honum þar sem peningurinn hefði verið lagður inn á vinkonu hennar og hún hefði ekki aðgang að þeim reikningi. Þegar hún varð ekki við kröfu mannsins um endurgreiðslu hóf hann að beita hana ofbeldi og meinaði henni útgöngu úr herbergi sem þau voru stödd í.

Frelsissvipt í þrjá klukkutíma

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi svipt konuna frelsi í að minnsta kosti þrjár klukkustundir, en á þeim tíma þvingaði hann hana ítrekað, án samþykkis, til samræðis, endaþarmsmaka, munnmaka og til að sleikja á honum endaþarminn, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Maðurinn hafi tekið konuna hálstaki að minnsta kosti tvisvar og slegið hana endurtekið í andlit og búk, með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á augntóft og á vanga- og kjálkabeinum vinstra megin, mar á andliti, hálsi og upphandlegg. Húðblæðingar á hálsi og punktblæðingar í andliti og í slímhúð augna og í munni, ásamt yfirborðsáverka á andliti og búk.

Gróf og ofsafengin atlaga

Maðurinn játaði brotin að hluta en krafðist þess að hann yrði sýknaður af ákæru vegna frelsissviptingar, nauðgunar og líkamsárásar að hluta, en hann játaði að hafa tekið konuna hálstaki einu sinni og slegið hana í andlitið með handarbakinu.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að atlaga mannsins að konunni hefði verið ofsafengin og gróf og að hann hefði valdið henni alvarlegum líkamlegum áverkum og brotið gegn kynfrelsi hennar og þeim trúnaði sem hún sýndi honum.

Þótti því hæfileg refsing fjögurra ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert