Hagsmunir ríkisins að ljúka máli Erlu

Erla Bolladóttir fékk 32 milljónir króna í bætur vegna gæsluvarðhalds …
Erla Bolladóttir fékk 32 milljónir króna í bætur vegna gæsluvarðhalds sem hún þurfti að sæta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í minn­is­blaði til for­sæt­is­ráðherra seg­ir að rík­inu sé ekki skylt að bera fyr­ir sig fyrn­ingu og í máli Erlu Bolla­dótt­ur séu það hags­mun­ir rík­is­ins að gera það ekki. Það hafi þó þurft að vera rök­stutt sér­stak­lega með til­liti til óvenju­legra aðstæðna sem eru ekki lík­leg­ar til að skapa al­mennt for­dæmi. 

Í gær var til­kynnt um að sam­komu­lag hafi náðst milli ís­lenska rík­is­ins og Erlu Bolla­dótt­ur vegna gæslu­v­arðhalds sem Erla sætti fyr­ir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Ein­ars­son­ar. Erla var sýknuð af þeim ákær­um í Hæsta­rétti 1980 en hún mátti sæta frels­is­svipt­ingu í tæpa átta mánuði vegna máls­ins.

Í minn­is­blaðinu sem sent var frá skrif­stofu stjórn­skip­un­ar og stjórn­sýslu til for­sæt­is­ráðherra 16. des­em­ber síðastliðinn seg­ir:

„Ljóst er að þótt ríkið beri jafn­an fyr­ir sig fyrn­ingu þegar það á við er rík­inu ekki skylt að gera það. Í máli Erlu má færa rök fyr­ir því að hags­mun­ir rík­is­ins standi bein­lín­is til þess að bera ekki fyr­ir sig fyrn­ingu sök­um þess hve mik­il­vægt má telja að ljúka Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu gagn­vart þeim sem hafa átt um sárt að binda vegna þess.“

Þar seg­ir einnig að miki­vægt sé að ef sam­komu­lag ná­ist við Erlu grund­vall­ist það á því hve ein­stakt málið sé til að skapa ekki óæski­legt for­dæmi gagn­vart öðrum sem eru í svipaðri rétt­ar­stöðu.

Erla kæri ekki úr­sk­urðinn til MDE

Sam­kvæmt sam­komu­lag­inu sem gert var við Erlu greiðir ís­lenska ríkið Erlu miska­bæt­ur fyr­ir gæslu­v­arðhaldið á sama grund­velli og sak­born­ing­um í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmd­ar í Lands­rétti.

Nem­ur fjár­hæð miska­bót­anna um 32 millj­ón­um króna en fjár­hæðin tek­ur mið af þeim bót­um sem Lands­rétt­ur ákv­arðaði fyr­ir gæslu­v­arðhald í fyrr­nefnd­um dóm­um. Alls sat Erla í gæslu­v­arðhaldi í 232 daga í tengsl­um við meinta aðild sína að hvarfi Geirfinns.

Í sam­komu­lag­inu er einnig gengið úr skugga um að mál­inu sé nú lokið gagn­vart Erlu en þar seg­ir: „Erla lýs­ir því yfir að hún muni ekki kæra úr­sk­urð End­urupp­töku­dóm­stóls í máli nt. 8/​2022 til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu.“

Mál Sig­urðar verði tekið fyr­ir

Í minn­is­blaðinu seg­ir að eðli­legt sé að skoða mál Sig­urðar Ótt­ars Hreins­son­ar ef sátt myndi nást við Erlu. Bæt­ur til hans myndu nema rúm­lega þrem­ur millj­ón­um króna ef sama reikniaðferð yrði lögð til grund­vall­ar og hjá Erlu.

Sig­urður sat í gæslu­v­arðhaldi í um það vil einn mánuð í tengsl­um við Guðmund­ar- og Geirfinns­málið. Hann sendi rík­inu bóta­kröfu vegna þessa haustið 2018, en þeirri kröfu var hafnað með svipuðum rök­um og kröfu Erlu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert