Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á Suðurnesjum eru með viðbúnað á Keflavíkurflugvelli vegna tösku sem fannst yfirgefin í suðurbyggingu Leifsstöðvar.
Þetta staðfestir Bjarney S. Annelsdóttir yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
Tilkynning barst Neyðarlínunni klukkan 15.52 en að sögn Bjarneyjar er búið að rýma svæðið sem taskan fannst á. Starfsemin á flugstöðinni gengur þó ágætlega þrátt fyrir viðbúnaðinn.
„Það er búið að einangra þetta,“ segir Bjarney og tekur fram að umferð fólks hafi verið beint annað innan flugstöðvarinnar.
Búið var að skanna töskuna á flugvellinum sem fannst yfirgefin en eigandinn finnst ekki. Að sögn Bjarneyjar er viðbúnaður lögreglunnar samkvæmt verklagi.