„Þetta er auðvitað algjörlega galið“

Magnús Leopoldsson.
Magnús Leopoldsson.

Magnús Leópoldsson, einn fjórmenninganna sem voru bornir röngum sökum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, þar á meðal af Erlu Bolladóttur, segir ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að biðja Erlu afsökunar og greiða henni 32 milljónir í bætur, vera galna. Alls sat Erla í gæslu­v­arðhaldi í 232 daga í tengsl­um við meinta aðild sína að hvarfi Geirfinns Einarssonar.

„Þetta er auðvitað algjörlega galið, við erum bara í sjokki ef ég segi eins og er, þessar fjölskyldur. Við vitum ekki alveg hvað henni [Katrínu] gengur til,“ segir Magnús í samtali við mbl.is og á hann þá við fjölskyldur Einars Bollasonar, Valdimars Olsen, Sigurbjörns Eiríkssonar og síns eigin.

„Mér datt ekki í hug að svona gæti gerst í þessu landi að forsætisráðherra tæki sér svona vald. Enda er ég alveg viss um það að það hefur ekki nokkur lögfræðingur ráðlagt henni þetta.“

Tvær Erlur

Magnús segir það vera mjög sérstaka aðferðafræði hvernig Katrín lítur líti á Erlu á tvo mismunandi vegu.

„Hún er annars vegar einhver Erla Bolladóttir sem er saklaus og er höfð fyrir rangri sök, og svo er þetta einhver önnur Erla Bolladóttir sem er sek fyrir að bera menn röngum sökum. Þetta er auðvitað allt eitt og sama málið, þetta er einhver hroðalegur misskilningur hjá henni.“ 

„Þetta er ótrúleg vanvirðing við okkur og okkar fjölskyldur. Þetta sem hún er að láta hafa eftir sér að Erla sé eina konan í þessu máli, ég veit ekki hvaða rugl þetta er. Við áttum allir konur og við áttum allir börn,“ segir Magnús.

Aldrei fengið afsökunarbeiðni

Magnús segir að fjölskyldur fjórmenninganna eigi eftir að hittast betur til að meta stöðuna og ákveða hvað verði gert í kjölfar fregnanna um afsökunarbeiðni og bætur til Erlu. Hann segir að forsætisráðherra hljóti að vera búin að átta sig á því að hún sé búin að verða sér til skammar.

„Að forsætisráðherra Íslands skuli vera að biðja Erlu afsökunar er alveg ótrúlegt. Sú meðferð sem við fengum, við höfum aldrei fengið nokkra afsökunarbeiðni. Ekki frá þessari ríkisstjórn eða öðrum ríkisstjórnum og enginn séð ástæðu til þess að biðja okkur afsökunar. Við erum þó aðilarnir sem þurftum að þola skömmina, saklaust fólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert