Árelía Eydís Guðmundsdóttir er komin í jólaskap.
„Þegar ljósin fara að kvikna eitt og eitt í myrkrinu í lok nóvember og hillir undir jólapróf fer ég að komast í jólastuð. Hið sanna hátíðarskap hins vegar er þegar hinn himneski friður jólanna kviknar innra með mér þegar kirkjubjöllur klingja klukkan sex á aðfangadag,“ segir hún.
Hver eru eftirminnilegustu jólin?
Fáklædd fjölskyldan að sötra kampavín á ströndinni í Ástralíu undir heitri sól á aðfangadag (þau yngstu fengu ekki kampavín skal tekið fram) er líklega óvanalegasta jólaminning okkar hingað til.
Hvernig verða jólin í ár?
Jólin í ár verða bæði fjölmenn og blátt áfram dásamleg. Ég mun vera í stressi á síðustu stundu fram að mat, skipa krökkunum óþolinmóð fyrir og öskra á köttinn og þýt svo upp og set á mig varalit áður en gestir koma rétt fyrir kvöldmat. Klukkan 18 mun allt falla í dúnalogn og allir verða sestir niður þegar blessun hátíðarinnar leggst yfir okkur.
Ítarlegra viðtal er við Árelíu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina þar sem hún svarar léttum jólaspurningum ásamt fleirum.