Hundruðustu jólin hennar Helenu

Helena Sigtryggsdóttir rifjar upp sögur frá fyrri tímum, en hún …
Helena Sigtryggsdóttir rifjar upp sögur frá fyrri tímum, en hún verður hundrað ára á næsta ári. mbl.is/Ásdís

Í fjölskylduhúsi í Kópavogi býr hin 99 ára gamla Helena Sigtryggsdóttir, móðir, amma og langamma. Hún býður blaðamanni inn á hlýlegt heimili sitt en þar eru fyrir tvær dætur hennar, Jóna og Alda, sem eru þar mættar með gamlar ljósmyndir til að rifja upp minningar og jólahald áranna á Siglufirði með móður sinni. Í íbúðinni er fjöldi fjölskyldumynda og fallegra hluta sem fylgt hafa Helenu um langa hríð. Helena er hæglát, falleg kona sem ber aldurinn afar vel. Það er margs að minnast en Helena er nú að lifa sín hundruðustu jól. 

Hér er Helenu með barnabarnabörnunum, tvíburunum Ölmu Jóhönnu og Vigdísi …
Hér er Helenu með barnabarnabörnunum, tvíburunum Ölmu Jóhönnu og Vigdísi Sölku Jónasdætrum.

Ekkert skraut á trénu

„Já, ég man aðeins eftir jólunum þarna á Eyrarbakka,“ segir Helena.

„Ég man að maður í þorpinu, kallaður Kristján í Sæborg, smíðaði handa okkur jólatré sem var málað grænt. Það var hægt að festa á það kerti og var kveikt á þeim á aðfangadagskvöld. En það var ekkert jólaskraut hengt á tréð; það fékkst ekki neitt. Ég man ekki eftir að hafa fengið neitt í jólagjöf, en við fengum jólamat,“ segir hún.

„Kristján smíðaði svo handa okkur magasleða. Kalli bróðir lá á sleðanum og ég sat klofvega á bakinu á honum. Svona renndum við okkur heilu og hálfu dagana,“ segir hún og brosir að minningunni.

„Eitt sinn lenti ég næstum því í slysi. Ég var ein á sleðanum og brunaði hratt niður brekkuna. Ég skynjaði enga hættu og lenti næstum því út í tjörn. Það varð mér til bjargar að ég rakst á staur og hentist af sleðanum,“ segir hún og segir það líklega eina háskann sem hún lenti í sem barn.

„Ég man annars ekkert sérstaklega mikið eftir jólunum því það var ekki mikið tilstand. En það var gert vel sig við í mat og við gerðum laufabrauð. Það fékkst ekkert í búðunum; kreppan var í aðsigi og það komu engar vörur til landsins. Hvorki matarkyns né annað. Fátæktin var víða.“ 

Ekkert gefið í skóinn

Helena rifjar upp góða minningu frá jólum æskunnar. 

„Ég man eftir að það var barnaskemmtun niðri á Hjalteyri og Gústi sonur hjónanna á Eyrarbakka bar mig á bakinu niður í samkomuhús því það var svo mikill snjór þennan vetur. Þar var gengið í kringum jólatré og sungið og við fengum súkkulaði og rauð epli,“ segir Helena en hún segist ekki minnast þess að hafa trúað á jólasveininn.

Spurð hvort hún hafi sett skó út í glugga hlær Helena.

„Það var ekkert byrjað á því þá, en það var talað um Grýlu, Leppalúða og jólasveinana.“

Helena var í síld á Siglufirði þar sem hún bjó. …
Helena var í síld á Siglufirði þar sem hún bjó. Hér á mynd má sjá hana salta tíuþúsundustu tunnuna sem söltuð var á Söltunarstöðinni Nöf þetta sumar.

Skilað vel ævistarfinu

Um þessi jól ætlar Helena að borða hjá fjölskyldu Kristjáns á aðfangadag og það hefur hún langoftast gert en tvisvar hefur hún verið í Svíþjóð um jól. Í fyrra skiptið var hún hjá Ölmu í Lundi og sótti þar messu í dómkirkjunni. Í seinna skiptið var hún í Åkarp hjá nöfnu sinni og dótturdóttur, Helenu Sveinsdóttur skurðlækni.

Það er farið að líða að hádegi og blaðamanni er boðið til sætis í eldhúsinu þar sem okkar bíður ilmandi kaffi og fínasta meðlæti. Við ræðum allt fólkið hennar Helenu, en barnabörnin urðu fjórtán og barnabarnabörnin eru nú orðin tuttugu og fjögur.

„Það var nú lán að sleðinn hennar Helenu endaði ekki út í tjörn!“verður blaðamanni að orði yfir kaffinu. 

„Ég hefði getað drukknað þar,“ segir Helena og er afar þakklát fyrir góða afkomendur.

​Yngstu börn Helenu, Kristján Möller, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og …
​Yngstu börn Helenu, Kristján Möller, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og Alma, í dag landlænir, eru hér prúðbúin á jólum árið 1966. Picasa

„Það er gaman að fylgjast með öllu þessu fólki og vera ættmóðirin. Þetta er allt saman reglufólk sem hefur klárað nám. Ég vona að ég hafi skilað vel mínu æviverki. Mamma sagði einu sinni við mig: „Skaparinn hefur trúað þér fyrir þessum börnum Lena mín.“ Ég vona að hún hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum.“

Nú ertu að fara að lifa hundruðustu jólin þín. Finnst þér það ekki skrítið?

„Jú, mjög skrítið. Mér datt aldrei nokkurn tímann í hug að ég yrði svona gömul.“

Ítarlegt viðtal er við Helenu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert