Áhrif samdráttar í ferðaþjónustu vegna kórónuveirufaraldursins hafa komið misilla niður á atvinnutekjum eftir svæðum, samkvæmt samantekt Byggðastofnunar. Þótt samdráttur atvinnutekna í greininni hafi víðast hvar verið yfir 30% lækkaði hlutdeild einkennandi greina ferðaþjónustu í atvinnutekjum í Skaftafellssýslum úr 36,1% árið 2019 í 23,5% 2021 og í Reykjanesbæ úr 33,1% í 22,2%.
Á öðrum svæðum sem hafa verið háð ferðaþjónustu dróst hlutdeild atvinnugreinarinnar í atvinnutekjum einnig verulega saman árið 2020 og batnaði lítið eða minnkaði áfram árið 2021.
Heildaratvinnutekjur á árinu 2021 námu 1.462 milljörðum króna sem var um 70 milljörðum meira en á árinu 2020. Aukningin nemur 5%. Ef litið er á lengra tímabil, eða frá 2012, sést að núvirtar atvinnutekjur hafa aukist um 490 milljarða, eða 50%.
Byggðastofnun brýtur tölur Hagstofunnar um atvinnutekjur niður á svæði. Á árinu 2021 jukust heildaratvinnutekjur á öllum svæðum en árið áður höfðu þær dregist saman vegna faraldursins. Mest aukning heildaratvinnutekna á síðasta ári, miðað við árið á undan, var í Fjarðabyggð, 9,9%, en minnst í Eyjafirði utan Akureyrar, 1,2% og í Hafnarfirði, 1,8%.
Reiknað á íbúa voru atvinnutekjur hæstar í Fjarðabyggð á árinu 2021, eða 5,1 milljón kr. á mann. Næsthæstar eru tekjurnar í Garðabæ, 4,8 milljónir á mann.
Umfjöllunina í heild sinni er hægt að nálgast í Morgunblaðinu í dag.