„Það er búið að vera viss áskorun hjá okkur síðan síðustu helgi að opna garðana,“ segir Kári Aðalsteinsson, garðyrkjustjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, spurður út í færð og aðgengi í görðum umdæmisins þann dag ársins sem hve flestir leggja leið sína í kirkjugarðana, vitja leiða genginna ástvina, kveikja á kerti eða skilja þar eftir skreytingar aðrar.
Kári segir allar megingötur og bílastæði hreinsuð og þar sé umferð því greið, „en það er mikill snjór í görðunum, sérstaklega þessum tveimur stóru í efri byggðum, Gufunesi og Kópavogi, og víða eru leiði á kafi í snjó“, segir hann og beinir í framhaldinu þeim tilmælum til gesta að vera í góðum fótabúnaði og vel búnir almennt auk þess sem ekki sé úr vegi að hafa með áhöld til að moka og hreinsa frá leiðum, starfsfólk garðanna hafi hvorki búnað né bolmagn til að hreinsa frá leiðum í kjölfar fannfergis.
Flestallar gönguleiðir inni í görðunum eru vel hreinsaðar og í góðu ástandi að sögn garðyrkjustjórans enda ekki vanþörf á. Er umferðin mikil um garðana sem stendur?
„Jú jú, ég er í Hólavallakirkjugarði eins og er, en var að koma úr Fossvoginum og þar var bílastæðið að verða fullt og eins mikil umferð niður í garð, fólk var farið að drífa að klukkan átta í morgun með börn á snjósleðum,“ segir Kári og vill að lokum beina upplýsingum til gesta Fossvogskirkjugarðs.
„Við lokum fyrir alla bílaumferð niður í garð milli klukkan ellefu og tvö, þá hafa bara fótgangandi aðgang að garðinum. Klukkan tvö bakkar okkar fólk svo út og þá er hægt að fara á bílum niður í garð. Við höfum gert þetta síðustu fjögur ár með þessum hætti, einmitt vegna aðstæðna eins og eru núna, þarna eru snjóruðningar og garðurinn er þröngur og þá eru bílar og fólk aldrei heppileg blanda,“ segir Kári.
Kveður hann sjálfan sig og samstarfsfólk einnig hafa fundið fyrir því að öðruvísi stemmning skapist í garðinum þegar vélknúnu ökutækin hverfa á braut. „Flestir eru mjög sáttir við þetta,“ segir Kári og ítrekar að þessar reglur og tímamörk gildi aðeins um Fossvoginn.
„Gufuneskirkjugarður er allt öðruvísi byggður, þar eru stór bílastæði hér og þar inni í garðinum svo það horfir allt öðruvísi við, en Fossvogsgarður varð 90 ára á þessu ári og var hannaður með allt öðru hugarfari,“ segir Kári Aðalsteinsson garðyrkjustjóri að lokum á aðfangadag, daginn sem kirkjugarðar landsins eru jafnan hve fjölsóttastir.