„Það er búið að vera allt mögulegt bara,“ segir Ingi Már Björnsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal, en þar hefur hann staðið í ströngu ásamt samherjum í sveitinni síðan síðdegis í gær í því sem hann kallar hundleiðinlegt veður.
Snjónum kyngdi niður án afláts í gær og í nótt, eins og víðar á landinu, og hefur Ingi Már verið við snjómokstur á jarðýtu í dag enda víða ófært.
Verkefni Víkverja hófust klukkan hálffjögur í gær, á aðfangadag. „Þá byrjuðum við á að draga upp rútu og vorum til tíu alveg samfleytt að draga upp bíla eða keyra fólk eitthvað, svo fórum við aftur í nótt vestur á Mýrdalssand, um miðnætti, og vorum til sex í morgun,“ segir Ingi Már sem hefur ekki haldið sérstaklega utan um fjölda útkalla, í nógu hafi hins vegar verið að snúast.
Víkverji hafi þó ekki verið með fjölda manns í útköllum, þrjá bíla þegar mest var og tvo í nótt. Er björgunarsveitarfólk alltaf tilbúið að hlaupa frá jólasteikinni til að draga fólk upp úr snjósköflum? „Já já, það eru alltaf einhverjir til í það,“ svarar Ingi og segir nú hætt að snjóa og ágætisveður komið. Hins vegar sé allt kolófært og því hafi hann verið við mokstur síðan hann kom heim í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg aðstoðaði Víkverji alls um 200 manns á 50 ökutækjum beggja vegna Víkur, meðal annars við Reynisfjall, Hjörleifshöfða og Múlakvísl.