Föst í nokkrar klukkustundir áður en hjálp barst

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast á Suðurlandi í gær og í morgun, þar sem að fannfergi er mikið og akstursskilyrði erfið. Eins og mbl.is greindi frá í dag þurftu félagar í Víkverja að sinna um 50 útköllum vegna bíla sem voru fastir beggja vegna Vík í Mýrdal í gærkvöldi og héldu útköllin áfram í nótt. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, fór yfir verkefni björgunarsveita í dag í samtali við mbl.is.

Rétt fyrir klukkan sex í morgun barst útkall frá Þingvallavatni þar sem að erlendir ferðamenn höfðu fest bíl sinn á leið á ION hótelið. Ferðamennirnir höfðu verið í bílnum í nokkrar klukkustundir áður en að kallað var eftir aðstoð.

Tveir björgunarsveitarbílar voru sendir frá höfuðborgarsvæðinu og var ferðamönnunum fylgt að hótelinu eftir að búið var að losa bílinn þeirra. 

Þegar á hótelið var komið frétti björgunarsveitarfólkið að starfsmaður hótelsins hefði fest bíl sinn við Úlfljótsvatn á leiðinni heim af vaktinni. Var förinni því heitið þangað þar sem bíllinn var losaður og fékk starfsmaðurinn fylgd að hringtorginu við Selfoss.

Þá hafa björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli og Björgunarfélag Vestmannaeyja aðstoðað við sjúkraflutninga í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka