Leit hefur verið afturkölluð að tveimur hópum ferðamanna sem höfðu farið í göngu frá hótelum sínum í Reynishverfi og rötuðu ekki til baka vegna slæms veðurs um eftirmiðdag.
Annar hópurinn er kominn inn á hótel í Reynisfjöru og hinn á nærliggjandi sveitabæi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Áður hafði mbl.is greint frá ógöngum hópanna.
Í tilkynningunni kemur fram að ferðamennirnir hafi verið í sambandi við Neyðarlínu en gátu ekki gert sér grein fyrir hvar þeir voru staðsettir. Þreifandi bylur var þá skollinn á.