Anton Guðjónsson
Unnið er að því að koma í skjól um 50 strandaglópum við Gatnabrún, þ.e. við afleggjarann að Reynisfjöru, og 10 við Pétursey.
Annasamt hefur verið hjá björgunarsveitum á Suðurlandi í dag, sérstaklega frá Pétursey og austur í Vík.
„Stóra vandamálið er að fólk var að fara framhjá lokunarpóstum og virða að vettugi tilmæli björgunarsveitarfólks sem var á lokunarpóstum,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Hann segir „þreifandi byl“ vera á svæðinu og verið sé að bjarga því fólki sem virti lokanir að vettugi fyrr í dag og lenti í vandræðum í kjölfarið.
„Vonandi fer að sjá fyrir endann á því,“ segir Jón Þór.
„Lögreglan hefur mannað einhverja lokunarpósta núna til þess að gefa þeim meiri vigt,“ segir Jón Þór.
Hann segir að verið sé að flytja björgunartæki austur því veðrið verði „snælduvitlaust í nótt og eitthvað fram á daginn undir Eyjafjöllum og austur í Mýrdal og aftur austur á Höfn“.
Hann segir aðstæður hafa verið mjög erfiðar í dag.
„Björgunarfólk átti í erfiðleikum með að átta sig á hvort það var á þjóðveginum eða ekki, það var það blint.“