Karlmaður á sextugsaldri, sem áður var raunverulegur framkvæmdastjóri og eigandi Kornsins, var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi vegna tugmilljóna skattalagabrots í tengslum við rekstur félagsins yfir nokkurra ára tímabil áður áður en félagið var selt til annars eiganda í febrúar árið 2017. Var manninum jafnframt gert að greiða 47,4 milljónir í sekt til ríkisins. Kona sem ákærð var í málinu var hins vegar sýknuð.
Dómurinn féll í maí í fyrra eftir að hafa verið tekinn upp einu sinni þar sem hlutur annars manns sem hafði verið ákærður var tekinn út fyrir málið. Dómurinn var hins vegar aldrei birtur á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur, en fékkst afhentur eftir fyrirspurn mbl.is um afdrif málsins.
Fljótlega eftir söluna 2017 komu upp rekstrarerfiðleikar og stöðvaði bakaríið alla starfsemi sína í desember 2018, en Kornið rak þegar mest var 12 útsölustaði á höfuðborgarsvæðinu og bakarí í Hjallabrekku.
Upphaflega voru þrjú ákærð í málinu. Þar af er Rögnvaldur Þorkelsson, sem sá um rekstur félagsins, en hann hafði tekið við fyrirtækinu af foreldrum sínum sem stofnuðu Kornið árið 1981. Þá var einnig kona ákærð, en hún var daglegur stjórnandi félagsins. Að lokum var þriðji maður ákærður, en hann var skráður fyrir félaginu PC-tölvan. Var hlutur hans tekinn út úr málinu fyrir aðalmeðferð.
Rögnvaldur og konan voru talin hafa oftalið rekstrargjöld í bókhaldi Kornsins á árunum 2013-2016 upp á 88 milljónir og í öðru félagi upp á 7,3 milljónir, en upphæðin var við meðferð málsins lækkuð um tæplega 10 milljónir vegna ákvörðunar yfirskattanefndar í málefnum Rögnvaldar. Var það gert með tilhæfulausum reikningum frá PC-tölvunni, en í ákærunni segir að þeir hafi samtals verið upp á 161 milljón á tímabilinu.
Fyrir dómi sagðist Rögnvaldur hafa starfað „á gólfinu“ hjá fyrirtækinu, en komið að stærri ákvörðunum. Þá sagðist hann einnig hafa verið eigandi, þótt annar aðili hafi verið skráður eigandi. Kom fram við meðferð málsins að Rögnvaldur hafði ekki viljað vera skráður eigandi vegna skuldamála. Konan var hins vegar daglegur stjórnandi, en nokkuð mismunandi var hversu mikil ábyrgð þeirra var eftir því hvort var spurt. Þannig sagðist konan hafa verið í sambandi við Rögnvalds oft á dag og þó hún hafi séð um skrifstofuna, vaktamál og innkaup, þá hafi allt annað þurft að fara í gegnum hann, m.a. samþykktir á reikningum sem ekki voru algengustu birgjar.
Í grunninn lýsti hún því sem svo að hún hafi verið daglegur stjórnandi, en hann framkvæmdastjóri. Endurskoðandi sem einnig bar vitni í málinu lýsti því þannig að konan hafi verið „millistykki“ frá ákvarðanatöku Rögnvaldar og því sem gert var í fyrirtækinu.
Eigandi PC-tölva vitnaði í málinu gegn Rögnvaldi og sagði hann hafa fengið sig til gefa út reikningana. Þegar búið væri að greiða þá til PC-tölva hefði hann farið og tekið þá út í reiðufé, sjálfur fengið 10%, en skilað restinni í reiðufé til Rögnvaldar. Staðfesti hann að konan hefði ekkert vitað af þessu og að upphæðirnar sem áttu að vera á reikningunum hefðu alltaf komið frá Rögnvaldi.
Rögnvaldur sagði manninn hins vegar hafa unnið verktakavinnu fyrir Kornið, m.a. í útkeyrslu og við önnur störf. Fyrir dóminum kom hins vegar fram að maðurinn hefði á sama tímabili verið með vottorð upp á að vera óvinnuhæfur. Taldi dómarinn því skýringar Rögnvaldar ósennilegar.
Sagði Rögnvaldur hins vegar að maðurinn hefði reynt að kúga af sér fé. Vísaði hann til þess að maðurinn hefði haft samband við sig og sagt að skatturinn væri á eftir sér vegna fyrrnefndra reikninga. Rögnvaldur taldi reikningana alveg rétta, en sagði manninn hafa farið fram á 120 milljónir til að geta lokið sínum málum hjá skattinum sem Rögnvaldur tók ekki í mál. Hafi maðurinn þá sagst ætla að fara með málið til skattsins og hafi svo rokið á dyr og flokkaði Rögnvaldur það sem fjárkúgun.
Konan, maðurinn og endurskoðandi félagsins voru öll sammála um að Rögnvaldur væri raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins. Þá lýsti endurskoðandinn því að Rögnvaldur hafi farið yfir alla ársreikninga áður en þeim var skilað og að hann hafi ekki mátt sýna eða ræða ársreikninga félagsins við foreldra Rögnvaldar, sem voru upphaflegir eigendur félagsins. Lýsti hann því sem svo að Rögnvaldur hafi sagt reikningana „algjört leyndarmál“ og bara á milli þeirra.
Rögnvaldur neitaði sök varðandi alla ákæruliði. Dómarinn taldi hins vegar að nægjanlega vel væri sýnt fram á að hann hefði tekið allar stærri ákvarðanir sem vörðuðu bæði móðurfélag Kornsins og annað smærra félag sem hann var með prókúru fyrir og hafði stofnað og var sannað gegn neitun hans að hafa oftalið rekstrargjöld þeirra um tugi milljóna og að hafa ekki fært bókhaldið rétt. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa ekki gefið upp yfir 72 milljóna tekjur til skatts og þar með komist hjá 32 milljóna skattgreiðslu.
Konan var sýknuð af öllum ákæruliðum þar sem ljóst þótti að hún hefði ekki haft með fjármálastjórn félagsins að gera annað en daglegan rekstur. Allar ákvarðanir hefðu verið í höndum Rögnvaldar.Mat dómurinn jafnframt framburð hennar og mannsins trúverðugan, en sagði skýringar Rögnvaldar ekki standast gögn málsins.
„Brot hans eru stórfelld og sýna styrkan og einbeittan brotavilja,“ segir í dómsorði og er hæfileg refsing talin 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi, en tekið er fram að langt hafi verið frá því að brotin voru framin. Er honum jafnframt gert að greiða 47,4 milljónir í sekt og tvo þriðju hluta af 5,2 milljóna málskostnaði sínum. 3,7 milljóna málsvarnarlaun konunnar féllu hins vegar á ríkið.