„Það hefði verið mun minna sem hefði þurft að fást við þarna í Mýrdalnum í gær ef allir hefðu virt lokanir. Ég er ekki viss um að nokkur hefði verið á ferli,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Mikið var að gera hjá björgunarsveitum á Suðurlandi í gær þar sem aðstoða þurfti fjölda fólks sem festi bíla sína á lokuðum vegum. Á meðal verkefna var að losa rútu sem festist í tvígang eftir að bílstjóri hennar virti tilmæli björgunarsveitarfólks að vettugi.
„Ég held það sé óumdeilt að þeir sem voru á ferð þarna höfðu farið fram hjá lokunum, langflestir,“ segir Jón Þór.
Jón Þór segir lokunarpósta á þjóðvegum yfirleitt vera mannaðir af sjálfboðaliðum.
„Björgunarsveitarfólk hefur engar valdheimildir. Það hefur ekkert vald til þess að stöðva för fólks, það getur bara sagt að vegurinn sé lokaður,“ segir hann.
„Lokanirnar eru kannski sjaldnast þar sem veðrið er verst. Fólk ályktar að þetta sé ekkert slæmt og fer bara samt og keyrir svo fyrir næsta hól eða fjall og inn í veðrið,“ segir Jón Þór.
„Það er skiljanlegt að ferðamennirnir okkar átti sig ekki á þessu en það er okkar að láta þá vita.“
Jón Þór segir að langflestir af þeim sem björgunarsveitir hafi aðstoðað að undanförnu hafi verið erlendir ferðamenn.
„Flestir hafa kannski ekki upplifað neitt þessu líkt áður, eða hafa ekki þekkinguna til þess að takast á við þetta,“ segir Jón Þór.
Hann hvetur þá sem reka gistihús að láta ferðamenn vita af aðstæðum þannig þeir séu ekki að lenda í vandræðum.
„Við þurfum einhvern veginn að koma þeim skilaboðum sérstaklega til þeirra sem hýsa ferðamenn yfir nóttina að við hugsum vel um þessa gesti okkar sem eru ekki alveg með á hreinu hvernig aðstæðurnar eru sem þeir eru að fara út í. Þetta er vetrarfærð sem fæstir þekkja.“