Ógerningur að gefa börnum 39 gjafir fyrir jól

Alexsandra Perepelitsia eyðir nú jólunum á Íslandi ásamt börnum sínum …
Alexsandra Perepelitsia eyðir nú jólunum á Íslandi ásamt börnum sínum þremur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinni úkraínsku Aleksöndru Perepelitsiu finnst það vera ógerningur að fara eftir íslenskum jólasið og sjá til þess að jólasveinarnir þrettán gæfu börnunum hennar þremur í skóinn fram að aðfangadag, alls 39 gjafir. Hún ætlar frekar að fylgja úkraínskri jólahefð og gefa börnunum pakka 6. janúar, sem er aðfangadagur Úkraínumanna samkvæmt júlíanska tímatalinu.

Blaðamaður fór í heimsókn til Aleksöndru rétt fyrir íslensku jólin en hún var ein af fyrstu úkraínsku flóttamönnunum til að koma til Íslands eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Aðfangadagur Úkraínumanna nefnist Sviatvechir, eða heilagt kvöld.
Aðfangadagur Úkraínumanna nefnist Sviatvechir, eða heilagt kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Aleksandra býr nú í Reykjavík ásamt börnum sínum þremur, Anastasiu sem er ellefu ára, Platon sem er sex ára og Aron sem er þriggja ára.

Áður bjó hún í borginni Irpín í útjaðri Kænugarðs þar sem hún starfaði sem listamaður, dansari, leikkona og jógakennari. Meðal annars vann hún sem leikari í þjóðleikhúsinu í Kænugarði, ásamt því að leika í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Hafði klukkustund til að pakka í töskur

Innrás Rússa hófst snemma morguns fimmtudaginn 24. febrúar og ákvað Aleksandra strax að fara til föður síns, sem býr í litlum smábæ rétt fyrir utan Kænugarð, ásamt börnum sínum, eiginmanni og móður. Þar búa faðir hennar og amma og afi enn.

„Sumir biðu en mér fannst ég ekki geta beðið af því þetta var, og er ekki venjulegt ástand,“ segir hún og bætir við að faðir hennar hafi verið í hernum áður en hann fór á eftirlaun, og hann ráðlagði þeim að yfirgefa Irpin strax. Borgin hefur orðið einkar illa úti eftir árásir Rússa.

Aleksandra segir að erfitt hafi verið að pakka niður í töskur er fjölskyldan yfirgaf heimilið þeirra. 

„Þú hefur klukkutíma til að pakka öllu sem þig vantar en þú veist ekki hvað þið vantar, því þú veist ekki hvert þú ert að fara eða í hversu langan tíma,“ segir hún og bætir við að fyrstu vikurnar hafi Aleksandra verið drifin áfram af adrenalíni.

Keyrðu tvö þúsund kílómetra til að sækja fjölskylduna

Fyrrverandi eiginmaður hennar sótti dóttur þeirra heim til foreldra hennar og keyrði beint til Lvív í Vestur-Úkraínu, líkt og margir aðrir sem voru að flýja ástandið.

Aleksandra ákvað að það besta í stöðunni væri fyrir hana og drengina að fara til ættingja annars staðar í Evrópu. Aleksandra á móðursystur á Ítalíu og systur sem hefur búið á Íslandi í átta ár.

„Það hringdu allir í okkur og grátbáðu okkur að koma til sín.“

Frænka hennar keyrði alla leið frá Ítalíu til Úkraínu, um tvö þúsund kílómetra, til þess að sækja fjölskylduna, en á landamærunum hitti Aleksandra fyrrverandi eiginmann sinn og dóttur þeirra.

Frænkan keyrði því Aleksöndru og börnin hennar þrjú, ásamt móður hennar, til Búdapest í Ungverjalandi þaðan sem þau flugu til Íslands. Hún minnist þess að börnin hennar voru ekki með vegabréf, en sem betur fer hafi fæðingarvottorð þeirra dugað til þess að þeim var hleypt um borð í flugvélina.

Fimm fullorðnir og fimm börn á einu heimili

Fjölskyldan kom til Íslands viku eftir að stríðið hófst, 1. mars.

Þá var förinni heitið til Egilsstaða þar sem systir hennar bjó ásamt íslenskum eiginmanni og tveimur dætrum.

Aleksandra býr nú í Reykjavík ásamt börnum sínum þremur, Anastasiu …
Aleksandra býr nú í Reykjavík ásamt börnum sínum þremur, Anastasiu sem er ellefu ára, Platon sem er sex ára og Aron sem er þriggja ára. Ljósmynd/Aðsend

 „Þar bjuggum við í fimm mánuði. Þar af bjuggum við tíu saman í tvo mánuði, þar af voru fimm börn á heimilinu. Það var góð lexía en okkur tókst það.“

Spurð hvort eiginmaður hennar hafi ekki komið með þeim segir Aleksandra að hann hafi komið til Íslands eftir sex mánuði og þau skilið í kjölfarið, en það sé saga sem segja megi síðar.

Hún segir að dóttir hennar sakni föður síns mikið þar sem þau séu mjög náin. Hún hefur hitt hann einu sinni síðan stríðið hófst er hún heimsótti hann í Póllandi. Aleksandra segir að mikið hafi verið grátið er Anastasia þurfti að kveðja hann í annað sinn.

Þá eru vinir Anastasiu staddir um allan heim, þar sem svo margir hafa flúið heimalandið. Því eyði hún miklum tíma á netinu í samskiptum við þá.

Íslenskir skólar góðir í aðlögun

Aleksandra segir að börnin hennar hafi annars aðlagast vel íslensku samfélagi. Sá yngsti er í leikskóla og hin tvö ganga í Háteigsskóla. 

„Íslenskir skólar eru að mestu leyti góðir fyrir úkraínsk börn. Þeir eru góðir í að aðlaga börnin að samfélaginu. Kennarnir eru alltaf að spyrja hvernig þú hafir það og hvernig þér líði,“ segir hún og bætir við að skólar í Úkraínu séu flestir mun strangari. 

Aleksandra vann á gistiheimili systur sinnar á Egilsstöðum, en nú vinnur hún í verslun á Laugavegi á milli þess sem hún kennir Úkraínumönnum jóga og dans. Þá hefur hún einnig tekið þátt í nokkrum kvikmyndatökum.

Áður bjó Aleksandra í borginni Irpin í útjaðri Kænugarðs þar …
Áður bjó Aleksandra í borginni Irpin í útjaðri Kænugarðs þar sem hún starfaði sem listamaður, dansari, leikkona og jógakennari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aleksandra minnist á að í sumar hafi hún og systir hennar staðið að baki nokkrum góðgerðarsýningum sem sýndar voru meðal annars á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Akureyri til styrktar heilsugæslustöðvum í Kænugarði.

„Við skiljum að Íslendingar hafa gefið okkur svo mikið og við viljum gefa eitthvað til baka.“

„Gott að vera á Íslandi – fyrir utan veðrið“

Aleksandra segir að Úkraínumenn á Íslandi styðji þétt við bakið á hver öðrum og þá hittist fólk reglulega. Frá því að stríðið hófst hafa 2.290 einstaklingar komið hingað til lands frá Úkraínu.

„Það er mjög gott hvað við erum náin og reynum að hjálpa hvort öðru,“ segir hún og bætir við að úkraínska þjóðin sé fjölbreytt og fólk eigi misauðvelt með að aðlagast íslensku samfélagi.

„Það er mjög gott að vera á Íslandi – fyrir utan veðrið,“ segir Aleksandra sposk.

„Sannkölluð partívika“

Talið berst þá aftur að jólum í Úkraínu, en aðfangadagur þar nefnist Sviatvechir, eða heilagt kvöld.

Fjölskyldur skreyta þá hús sín, borða saman mat og syngja saman. Úkraínskur jólamatur samanstendur af tólf réttum sem eru samkvæmt hefðinni grænmetisréttir. Mismunandi fjölskyldur hafa þó mismunandi hefðir.

Jólunum lýkur svo 19. janúar, á skírnardegi Jesú. Aleksandra segir að jólavikan einkennist af mikilli gleði og söng, börn borði yfir sig af sælgæti. „Þessi vika er sannkölluð partívika.“

Líkt og sagði hér í inngangi telur Aleksandra íslensku jólasveinanna heldur gjafmilda, en 19. desember er dagur heilags Nikulásar þar sem börn fá gjöf undir koddann ef þau hafa verið þæg.

Aleksandra minnist á að Anastasiu hafi fundist það ansi fúlt er hún sá á skóladagatalinu að hún þyrfti að mæta í skólann 6. og 7. janúar. Í Úkraínu tíðkast það að börn fái jólafrí frá 30. eða 31. desember og fram í miðjan janúar.

Hún segist óviss hvernig fjölskyldan eigi eftir að eyða íslensku jólunum, en mögulega fái þau vinafólk í heimsókn frá Egilsstöðum.

Vill að börnin alist upp við frið

Spurð hvort hún stefni á að búa áfram á Íslandi segir Aleksandra það erfiða spurningu. Hún vill að börnin hennar búi við frið og þurfi ekki að upplifa eða hafa áhyggjur af stríði líkt og svo margar kynslóðir Úkraínumanna.

Hún segir að börnin hennar spyrji hana oft hvenær þau geti farið heim til Úkraínu og að svarið sé enn sem komið er, „ekki fyrr en stríðinu er lokið“. Jafnvel þá segist hún ekki vera viss um þau fari tilbaka, „það er svo mikill sársauki þar“.

Aleksandra segir að lokum að þó að stríðið sé skelfilegt þá hafi það einnig dregið fram góðvild í fólki. „Við megum ekki gleyma að sýna sömu góðvild á friðartímum, við vitum aldrei hvað getur gerst á morgun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert