„Þessi bakki fer hratt yfir“

Það hlýnar aðeins með væntanlegri lægð en svo kólnar á …
Það hlýnar aðeins með væntanlegri lægð en svo kólnar á ný. mbl.is/Árni Sæberg

Síðdegis byrjar að hvessa á suðvesturhorninu og má búast við að vindur nái 8 til 15 metrum á sekúndu. Þá byrjar að snjóa upp úr klukkan 21, með úrkomubakka sem færist til austurs yfir nóttina með hvassri suðaustanátt.  

„Þessi bakki fer hratt yfir, það snjóar bara í nokkrar klukkustundir,“ segir Marcel Di Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Á höfuðborgarsvæðinu má búast við hvelli sem byrjar rétt fyrir miðnætti en lýkur um klukkan þrjú. 

Kalt veður í kortunum

Viðbúið er að umferð spillist á morgun. „Það verður ekki beint stormur eða hvassviðri en það þarf lítinn vind til þess að snjórinn fjúki, þetta verða 10 til 18 metrar á sekúndu úr austanátt.“ 

Með þessari austanlægð hlýnar, svo hitastig verður á bilinu -2 til -7 gráður. Þegar hún svo gengur yfir fáum við aftur norðan- eða norðaustanátt. „Það er kalt veður í kortunum.“

Í dag og í nótt eru akstursskilyrði ekki upp á marga fiska á sunnanverðu landinu, enn er víða lokað á Suður- og Suðausturlandi. Þá er snjórinn ekki líklegur til að vera að fara í bráð, en væntanleg snjókoma er að bæta 10 til 20 sentímetrum við hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert