Almennt sorp losað fyrir áramót en hitt bíður

Þung færð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Þung færð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag. mbl.is/Arnþór

Gera má ráð fyrir sorphirða í Reykjavík verði einum eða tveimur dögum á eftir áætlun á milli jóla og nýárs, en stefnt er á að allar tunnur með almennu sorpi verði losaðar fyrir áramót. Endurvinnslutunnurnar gætu hins vegar þurft að bíða fram á nýtt ár í sumum hverfum, að sögn Vals Sigurðssonar, rekstrarstjóra sorphirðu hjá Reykjavíkurborg.

„Við munum leggja áherslu á almenna ruslið, við viljum frekar losa fólk við það. Þessar tafir munu því líklega bitna á endurvinnslutunnunum,“ segir Valur í samtali við mbl.is.

Einhverjar tafir urðu í síðustu viku en með því að vinna á aðfangadag tókst sorphirðufólki að mestu leyti að vinna það upp. Þá verður einnig unnið á gamlársdag til að vinna upp fyrirhugaðar tafir í þessari viku.

Fólk moki og sé ekki fyrir

„Það urðu nokkrar götur eftir í Grafarvogi en við kláruðum það allt í dag. Núna erum við í rauninni degi eftir á því við vorum ekki að vinna í gær, þannig það hliðrast allt til, en við munum vinna á gamlársdag til að vinna það upp. Út af færðinni þá má búast við að það verði meiri tafir. Við verðum svona einum til tveimur dögum eftir á í þessari viku.“

Valur vill því endilega biðla til fólks að moka frá tunnum eins vel og hægt er og að reyna að leggja bílum þannig þeir séu ekki fyrir sorphirðufólki.

„Það gengur svolítið hægt í dag. Við erum svolítið að ryðja brautina því við byrjum svo snemma. Bílarnir okkar hafa verið að troðast í gegnum skafla og starfsfólkið okkar líka. Það er að vaða skafla með tunnur,“ segir Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert