Erfitt að skilja viðvarandi lokanir dag eftir dag

Færð á Mýrdalssandi var mjög slæm í gær.
Færð á Mýrdalssandi var mjög slæm í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures, veltir því upp hvort lokanir á vegum síðustu daga séu í miklu mæli fyrirbyggjandi aðgerðir sem gripið er til þó ástand á vegum sé ekki slæmt. Hvort verið sé að reyna að koma í veg fyrir vandamál sem gætu komið upp.

Hún vill meðal annars að það sé skoðað hvort það að úthýsa snjómokstri hafi haft áhrif á þjónustuna.

„Veturinn í ferðaþjónustunni er oft erfiður og þegar Reykjanesbrautin lokaði þá brugðust allir við, því það var ekki hægt að koma fólki í bæinn af flugvellinum. En stærsti hluti þeirra sem kemur til landsins er að koma til að skoða landið og er að fara í ferðir út úr höfuðborginni þannig það er ekki síður mikilvægt að halda vegum opnum þannig fólk geti skoðað landið,“ segir Gréta í samtali við mbl.is

„Það er að sjálfsögðu skiljanlegt að það komi dagar þar sem snjóar óvenju mikið á stuttum tíma, en að það séu viðvarandi lokanir daga eftir dag, það er erfitt að skilja,“ segir Gréta María og vísar til lokana á hringveginum síðustu daga.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic adventures, á erfitt með skilja …
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic adventures, á erfitt með skilja viðvarandi lokanir. mbl.is/Hallur Már

Þarf að bjarga verðmætum

„Áður fyrr var talað um að það þyrfti að bjarga verðmætum, það þyrfti að vinna fiskinn, en hjá okkur þarf að bjarga verðmætum með að koma fólki í ferðirnar sem var búið að bóka. Fyrir litla staði úti á landi sem eru að treysta á þetta tímabil, þetta jóla „season“, fyrir hótel og veitingastaði, þetta hefur áhrif þar.“

Hún telur að mikið tjón hafi orðið hjá þessum aðilum síðustu daga.

„Já, gríðarlegt tjón. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það.“

Mikið hafi verið um afbókanir og að fólk hafi ekki mætt í ferðir og á hótel.

„Ég get auðvitað bara talað við fyrir okkur. Við erum að fara með hundruð manns á dag en svo koma nokkrir dagar í röð þar sem við förum ekki með neitt,“ segir Gréta María. Allt hafi verið stopp hjá þeim þegar fór að snjóa fyrir jól og svo aftur núna.

„Við erum með öflugt fólk sem gerir það sem það getur í að leysa þau mál sem koma upp, en við getum ekki haldið vegunum opnum. Því miður.“

Vill skoða fylgd á klukkutíma fresti

Gréta María tekur fram að hjá Arctic adventures séu reynslumiklir ökuleiðsögumenn á vel útbúnum bílum sem ani ekki út einhverja vitleysu. „En undanfarna daga þá auðvitað spyr maður sig hvernig það stendur á því að það sé lokað dag eftir dag.“

Hún viðurkennir að hún hafi ekki svörin en telur mikilvægt að velta upp ýmsum spurningum og fá svör við þeim. Meðal annars þeirri spurningu hvort það hafi verið mistök að bjóða út snjómokstur.

„Er það að þessu sé í meira magni úthýst að hafa áhrif? Eru þeir sem eru að taka að sér þjónustuna ekki eins vel tækjum búnir og Vegagerðin var áður?“ spyr hún og vísar þar til snjómoksturs.

Gréta María vill ekki draga einhvern til ábyrgðar en vill að það sé skoðað af hverju það sé ítrekað að gerast að lokanir séu viðvarandi dögum saman. Mikilvægt sé að hugsa í lausnum.

„Eru einhverjar aðrar lausnir? Er hægt að vera með stóra veghefla sem fara í gegn á undan og það sé þá fylgd í gegn á klukkutíma fresti? Verður ekki að hugsa í lausnum?“

Björgunarsveitarfólk þurfti að aðstoða ökumenn í gær.
Björgunarsveitarfólk þurfti að aðstoða ökumenn í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Lokun Reykjanesbrautar vitundarvakning 

Spurð hvort svona viðvarandi lokanir geti haft þau áhrif að fleiri virði lokunarpósta að vettugi vegna pressu á að reyna að koma í veg fyrir fjártjón ferðaþjónustufyrirtækjanna, segir hún alveg möguleika á því þó flestir virði lokanir.

„Líka ef það sýnir sig að ástandið sé ekki eins slæmt, af því stundum virðist vera að það sé lokað, stundum vegna mikilla snjóa, en stundum spyr maður sig hvort það sé verið að reyna að forðast að það komi upp vandamál seinna. Að ástandið sé ekkert slæmt, meira fyrirbyggjandi aðgerð.“

Gréta María telur þó að eftir lokanir á Reykjanesbrautinni fyrir jól og slæma færð á höfuðborgarsvæðinu hafi fólk almennt vaknað til vitundar um að ekki sé um boðlegt ástand að ræða.

„Það er jákvæði punkturinn fyrir okkur, að vonandi verði eitthvað gert núna. Hvort sem það sé að setja meira fjármagn, eða skoða hvað sé að fara úrskeiðis, af hverju sé ekki hægt að halda opnu. Og hugsa þá hvernig er hægt að hugsa í lausnum og hvað er hægt að gera.“

Eigi ferðaþjónustan að halda áfram að styðja við hagvöxt í landinu þá þurfi að passa að það séu innviðir til staðar til að tryggja að það geti orðið.

„Það þýðir það að ferðaþjónustan getur ekki verið sumargrein heldur þarf greinin að geta starfað allt árið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert