Logi Sigurðarson
Snjóruðningstæki voru ræst út í nótt til að ryðja stofnbrautir Reykjavíkur.
Ekki hefur tekist að ræsa út öll tæki en Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu í Reykjavík býst við að svipaður fjöldi snjóruðningstækja sinni mokstrinum eins og síðast þegar snjó kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta verður svipað og síðast. Tækjum hefur ekkert fjölgað. Þetta eru eitthvað um 20 tæki,“ segir hann.
Eiður telur að það taki allt að fjóra til fimm daga að klára gatnamokstur, líkt og síðast. Önnur umferð verður farin yfir stofnbrautir til að halda þeim við, meðfram gatnamokstri.