Mokstur í Grindavík hófst um klukkan fimm í morgun en moka þarf gríðarlegt magn af snjó, að sögn björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Fram kemur í Facebook-færslu sveitarinnar frá því í nótt að götur bæjarins séu gjörsamlega ófærar og að ekki sé hægt að aka um þær nema á mikið breyttum jeppum. Víða séu þriggja til fjögurra metra háir skaflar.
Íbúar eru hvattir til að fara ekki til vinnu nema vera fullvissir um að búið sé að moka göturnar.