„Þetta er fyrirtæki sem er skylt að hafa öryggisáætlun og við köllum eftir henni og skýringum á því hvernig slíkt atvik eigi sér stað.“
Þetta segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri um mál hópbifreiðar sem hunsaði tvívegis lokanir björgunarsveita um helgina og festist í bæði skiptin.
Skarphéðinn segir að ferðaþjónustufyrirtæki verði að sýna ábyrga hegðun. Upp til hópa geri þau það og þetta hafi verið undantekningartilfelli.
„Fyrirtækið á að vera með innri ferla um það hvernig eigi að tryggja öryggi ferðamanna, þar með talið að koma þeim ekki í klandur út af veðri.
Það má kalla eftir því við viðkomandi fyrirtæki hvernig standi á því að þeir verkferlar eða öryggisáætlanir sem fyrirtækinu ber að hafa heimili bílstjóranum að sniðganga lokanir.“
Skarphéðinn segir að leyfissviptingar kunni að vera mjög íþyngjandi aðgerðir en ef að fyrirtæki brjóti ítrekað reglur þurfi mögulega að aðhafast. Ekki sé til skoðunar að svipta leyfum og hefur Ferðamálstofa aldrei gripið til þess.
Skarphéðinn segir raunverulegu flækjuna vera að koma upplýsingum áleiðis til ferðamanna á eigin vegum, þegar illa viðrar.
Eru ferðamenn nógu meðvitaðir um veðrið og hætturnar sem fylgja því?
„Nei, það kemur í ljós að þeir fara eitthvert sem þeir eiga ekki að vera fara. En alltaf má gera betur og alltaf eru menn að reyna gera betur í því að upplýsa.“
„Safetravel, Veðurstofan, Vegagerðin, visiticeland-vefurinn og fleiri. Allir þessir aðilar eru með þessa upplýsingamiðlun á erlendum tungumálum, allt á ensku og stundum fleiri tungumálum.
En hvernig fáum við ferðamanninn til þess að kynna sér það sem þarna er, það er alltaf áskorun,“ segir hann.
Allir í ferðaþjónustunni eru meðvitaðir um vandamálið að sögn hans og eru að gera sitt besta að miðla upplýsingum til ferðamanna.
„Þetta er samt alltaf áskorun, það að ferðamaðurinn átti sig á því að þó að ein leið sé opin þá getur önnur verið lokuð. Bílaleigufyrirtækin eru mjög vakandi fyrir þessu, með ábendingar til þeirra sem leigja bíla.“
„Eins og þegar flugvöllurinn er opinn þá gefa menn sér það að þeir komist á flugvöllinn. Þetta er ekkert endilega einfalt.“