Nafnleyndin mögulega mistök

Skoðað verður hvort dómurinn hafi mögulega verið ranglega nafnhreinsaður.
Skoðað verður hvort dómurinn hafi mögulega verið ranglega nafnhreinsaður. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur skoðar nú hvort nafn manns, sem var nýverið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og nauðgun, hefði átt að koma fram í dóminum. 

Athugað verður á næstu dögum hvort dómurinn hafi verið ranglega nafnhreinsaður, að sögn Ingibjargar Þorsteinsdóttur, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Nafn dæmdra almennt birt 

Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir viku síðan, fyrir vændiskaup, sérstaklega hættulega líkamsrárás, frelsissviptingu og nauðgun. Svipti hann konuna frelsi og beitti hana ofbeldi í þrjár klukkustundir.

Við birtingu dóma fara dómstólar að reglum um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla. Í þessu tilfelli gildir 10. gr., sem á við í sakamálum. Samkvæmt henni skal ákærði nafngreindur, ef hann er sakfelldur, nema þessi atriði eigi við:

1. Hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið.

2. Birting á nafni geti verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna, svo sem vegna fjölskyldutengsla.

Í 4. gr. reglnanna er þó að finna undantekningarreglu, í 5. tölulið sem hljóðar þannig:

Ef sérstakar ástæður mæla með geta forstöðumenn dómstólanna ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmá upplýsingar úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem ef útgáfa hennar án þess að nöfn eða aðrar upplýsingar séu afmáðar yrði sérstaklega þungbær fyrir aðila eða aðra eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.

Í heild sinni hljóðar 10. gr. um nafnleynd í sakamálum svo:

Við útgáfu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hans getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna svo sem vegna fjölskyldutengsla. Við mat á hagsmunum brotaþola skal leita sjónarmiða hans.

Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefur verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.

Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.

Þegar svo stendur á að Landsréttur eða Hæstiréttur ákveður að gæta nafnleyndar í dómsúrlausn sinni skal ganga úr skugga um að nafnleyndar sé einnig gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs. Sé nafnleyndar ekki gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs skal æðra dómstigið óska eftir því að dómur lægra dómstigs verði endurútgefinn með nafnleynd áður en dómur æðra dómstigs er gefinn út.

Við útgáfuna skal jafnframt gæta að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.

Við útgáfu úrskurða Endurupptökudóms í sakamálum skal fara eftir ákvæðum greinarinnar eftir því sem við getur átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert