Björgunarsveitir voru að á störfum á Suðurstrandavegi og Grindavíkurvegi til að verða klukkan fjögur í nótt, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
„Þá var veginum lokað og hóparnir sendir heim. Núna í morgunsárið hafa björgunarsveitir víða um landið verið að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk komist til og frá vinnu og verið til taks til að tryggja sjúkraflutninga,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.
Hann segir að til að mynda í Vestmannaeyjum sé verið að að manna tæki svo að hægt sé að fylgja sjúkrabílum ef til þess komi.
Jón Þór segir að nóttin hafi í raun verið róleg ef frá eru talin nokkur verkefni á Reykjanesskaganum. Þar hafi lokanir verið hertar frá því sem var á aðfangadag og jóladag, þar sem nokkuð var um að fólk lenti í vandræðum.
„Það er síðan Vegagerðarinnar að meta opnanir. Á meðan enginn er á ferðinni þarf ekki að aðstoða neinn,“ segir hann.