Eigendur félaganna Bala og Geysis-Fjárfestingarfélags ætla að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í svokölluðu Brúneggjamáli til Landsréttar.
Fréttablaðið greinir frá þessu.
Ríkisútvarpið og Matvælastofnun voru í síðustu viku sýknuð af dómskröfum Bala ehf. og Geysis-Fjárfestingarfélags ehf. í málinu, en því hafði áður verið vísað frá.
Bali og Geysir höfðuðu mál á hendur RÚV og MAST á fyrri hluta 2021 vegna umfjöllunar Kveiks um starfsemi Brúneggja í lok árs 2016.
Stuttu eftir þáttinn urðu Brúnegg gjaldþrota. Stefnendur töldu að RÚV og starfsmenn MAST hefðu farið með rangfærslur og með stefnu sinni vildu þeir að skaðabótaábyrgð RÚV og MAST yrði viðurkennd.