Eldur borinn að lögreglustöðinni á öðrum degi jóla

Málið er í rannsókn en enginn er í haldi.
Málið er í rannsókn en enginn er í haldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðssaksóknari rannsakar tilraun til íkveikju sem gerð var á lögreglustöðinni á Hverfisgötu á öðrum degi jóla. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. 

Árásin var gerð á tíunda tímanum að morgni til og brást varðstjóri á vakt strax við og slökkti eldinn með handslökkvitæki svo enginn beið skaða af. Sett var af stað rannsókn strax um morguninn, sem héraðssaksóknari fer með eðli málsins samkvæmt. Enginn er í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Brot gegn valdstjórninni og brennuákvæði til skoðunar

Verknaðurinn gæti verið talinn brot gegn valdstjórninni sbr. 106. gr. almennra hegningarlaga og má beita allt að átta ára fangelsi við slíkum brotum, beinist þau gegn starfsmanni sem hefur heimild til líkamlegrar beitingar.

Þá kemur einnig til skoðunar að fella brotið undir 164. gr. hegningarlaga um íkveikju, sem kveður á um að ef maður valdi eldsvoða, sem hefur í för með sér almannahættu, varði það fangelsi ekki skemur en sex mánuði. Fyrrgreind ákvæði koma meðal annars til skoðunar í málinu að sögn héraðssaksóknara en rannsóknin er á frumstigi.

Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem barst skömmu eftir að fréttin var birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert