Frumvarp til laga um sanngirnisbætur fyrir Hjalteyri

Barnaheimilið á Hjalteyri var rekið í Rich­ards­húsi á ár­un­um 1972 …
Barnaheimilið á Hjalteyri var rekið í Rich­ards­húsi á ár­un­um 1972 til 1979. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram í Samráðsgátt drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilinu á Hjalteyri í Arnarneshreppi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Þar segir að frumvarpið gerir kleift að taka á málum einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi þegar þeir voru vistaðir sem börn á heimilinu á tímabilinu 1972-1979. 

Þá heimili frumvarpið stjórnvöldum greiðslu sanngirnisbóta til þeirra sem urðu fyrir misgjörðum á heimilinu, í samræmi við þá stefnu sem var afmörkuð sanngirnisbótum frá upphafi.

Fyrir ári síðan skipaði ráðherra starfshóp vegna málsins. Í tilkynningunni segir að skýrsla hópsins og fyrri umfjöllun vistheimilanefndar styðja við þær frásagnir sem hafa komið upp undanfarið, þ.e. að einstaklingar sem þar voru vistaðir kunni að hafa orðið fyrir illri meðferð 

Hjalteyri utan við gildissvið laganna

„Nauðsynlegt er að lögfesta heimildir stjórnvalda til að ljúka uppgjöri sanngirnisbóta við einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á vistheimilinu á Hjalteyri, enda séu bótakröfurnar fyrndar og greiðsla bóta því umfram lagaskyldu.

Talið er nauðsynlegt að mæla fyrir um sértækar heimildir til að greiða sanngirnisbætur vegna misgjörða á heimilinu þar sem gildissvið laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum fyrir fötluð börn, takmarkast við stofnanir sem voru starfræktar á vegum hins opinbera fyrir fötluð börn.

Vistheimilið á Hjalteyri fellur utan við gildissvið laganna og í ljósi þess að umrædd lög falla brott 31. desember 2023, þykir heppilegra að lögfesta sérlög sem varða heimilið á Hjalteyri.“

Umsagnarfrestur á frumvarpinu er til 23. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert