Íslendingar alltaf á seinustu stundu fyrir áramót

Valgerður María Gunnarsdóttir, verslunarstjóri Partýbúðarinnar.
Valgerður María Gunnarsdóttir, verslunarstjóri Partýbúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Nú þegar líða fer að áramótum tekur sala í Partýbúðinni kipp. Valgerður María Gunnarsdóttir, verslunarstjóri Partýbúðarinnar, segir daginn í dag vera fyrsta daginn þar sem fólk ranki við sér í að kaupa skreytingar fyrir nýja árið. Gamlársdagur er stærstur þar sem Íslendingar séu einfaldlega alltaf á síðustu stundu.

„Dagurinn í dag er fyrsti dagurinn sem fólk rankar við sér. Við erum náttúrulega bara að selja gull, silfur og svart og þessar merktu áramótavörur.

Við vorum að fá vörur sem eru merktar á íslensku, til dæmis servíettur sem stendur á skál, gleðilegt nýtt ár, ártalið og svo framvegis. Þetta hefur slegið í gegn,“ segir Valgerður spurð hvað sé vinsælast um áramótin.

Gamlársdagur er stærsti dagurinn hjá Partýbúðinni fyrir áramótin.
Gamlársdagur er stærsti dagurinn hjá Partýbúðinni fyrir áramótin. mbl.is/Arnar Þór

Mesti erillinn á gamlársdag

Valgerður segir áramótin minni en hrekkjavökuna en erfitt sé að bera hátíðirnar saman þar sem sala fyrir áramótin nái yfir mun styttri tíma, einungis vikan á milli jóla og nýárs.

„Mesti erillinn er á gamlársdag en ef fólk vill fá það sem það vill þá borgar sig að koma sem fyrst þar sem við reynum að gera þetta þannig að þetta klárist nokkurn veginn. Við viljum ekki sitja uppi með birgðir sem úreldast eins og vörur sem stendur á 2023, það er erfitt að selja þær á næsta ári,“ segir Valgerður hlæjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert