Kuldapollur í Víðidalnum: 22,8 stiga frost

Í Víðidal er meðal annars hesthúsahverfi og má því ætla …
Í Víðidal er meðal annars hesthúsahverfi og má því ætla að knöpum verði oft kalt á baki. Eggert Jóhannesson

Í Víðidal í Reykjavík fór frost niður í -22,8 stig í morgun og er Víðidalur þar með kaldasti staður landsins. Þetta gefur þó ögn skakka mynd af hitastiginu á höfuðborgarsvæðinu, en á Seltjarnarnesi eru ekki nema -4 gráður, við Bústaðaveg mælast -10 gráður og á Kjalarnesi eru -5 gráður. 

Ástæðan fyrir því hve glöggt landslagið endurspeglast með þessum hætti í hitastiginu er hægviðrið, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. 

„Þetta gerist þegar það er mjög hægur vindur. Þá safnast kalda loftið í svokallaða polla. Þarna er greinilega kuldapollur, en hann kom bara í ljós þegar mælirinn var settur þarna á sínum tíma. Ef það er góður vindur þá dreifist kalda loftið betur og þá skiptir ekki máli hvar þú ert staddur,“ greinir Einar frá.

Kuldalæna frá Sandskeiði að Geirsnefi

Um er að ræða kuldalænu sem tengist kuldapotti á Sandskeiði á Suðurlandsvegi. Kalda loftið berst niður með Hólmsá, yfir Elliðavatn og niður Elliðaárfarveginn og að Ósum við Geirsnef. 

„Þetta er frekar afmarkað, menn sjá það þegar þeir keyra á bílunum yfir brýrnar við Elliðaárnar og þeir lenda í kuldanum þarna.“ 

Hiti á höfuðborgarsvæðinu getur verið afar breytilegur eftir því á hvaða mæli er litið. Einar bendir á að það sama myndi gilda um landsbyggðina ef þar væri jafn þétt net mæla, enda hafi landslagið mikil áhrif á hitastig. 

Kort frá Vegagerðinni sýndi kuldapollinn glöggt í morgun.
Kort frá Vegagerðinni sýndi kuldapollinn glöggt í morgun. Mynd/skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert