Sama hryðjuverkaógn á Íslandi, Noregi og Svíþjóð

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn.
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Viðbúnaðarstig lögreglu var hækkað þann 13. desember, þegar þeim sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverkaárásar var sleppt úr gæsluvarðhaldi.

Því er ekki um að ræða nýja ákvörðun en lögreglunni þótti rétt að tilkynna um viðbúnaðarstigið á sama tíma og kynnt var nýtt kerfi við áhættumat.

„Lögreglan er að ráða vel við stöðuna eins og hún er. Við höfum burði til að takast á við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir og við vildum að almenningur væri upplýstur um að þetta væri staðan,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. 

Viðbúnaðarstig lögreglu snýr fyrst og fremst að innra starfi lögreglunnar, mönnun viðbragðsaðila á borð við sérsveitir og fjarskiptasvið og einföldun verkferla. „Almenningur verður ekki sérstaklega var við breytingar á verklagi.“

Umhverfi okkar orðið líkara Norðurlöndunum

Þar til nú hefur verið í gildi fjögurra stiga hættumat vegna hryðjuverka á Íslandi. Nú hefur því verið breytt yfir í fimm stiga hættumat, í samræmi við það sem kerfi sem notast er við á Norðurlöndunum. 

„Það er búið að standa til í talsverðan tíma enda mun það auðvelda samanburð um ákvarðanatöku um hvort tilefni sé að til að hækka stig.“

Karl Steinar viðurkennir að hryðjuverkamálið svokallaða, sem búið er að ákæra fyrir, hafi gert það að verkum að innleiðingu hins nýja kerfis var loks hrundið af stað.

„Umhverfið okkar er orðið líkara því sem er á Norðurlöndunum.“

Ógnin stafar af lausn hinna ákærðu

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland sé á þriðja stigi, en það er sama hættustig og er í gildi í Noregi og í Svíþjóð. Hryðjuverkaógn í Færeyjum og á Grænlandi er á lægra stigi. Hryðjuverkaógn í Danmörku er á hærra stigi en Finnland er með annað kerfi. 

„Ef við værum enn með gamla kerfið þá hefðum við örugglega hækkað okkur upp í annað stigið af fjórum en við erum að fara í þriðja af fimm.“

Karl Steinar segir ljóst að ef hinir ákærðu í hryðjuverkamálinu væru ekki lausir úr gæsluvarðhaldi, hefði hættumatið verið annað. Ísland væri þá á öðru stigi en ekki þriðja, samkvæmt nýja kerfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka