Viðbúnaðarstig lögreglu hækkað

Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að Landsréttur felldi úr …
Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir mönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðbúnaðarstig lögreglu vegna hryðjuverka hefur verið hækkað úr A í B, í kjölfar úrskurðar Landsréttar um afléttingu gæsluvarðhalds yfir karlmönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverkaárásar. 

Um tímabundna ákvörðun er að ræða og verður viðbúnaðarstig metið reglulega, að því er fram kemur í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra. 

Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættustig vegna hryðjuverka. Það er mat hennar að hættustig á Íslandi sé á þriðja stigi. Það þýðir að deildin meti það sem svo að aukin ógn sé vegna þess að til staðar sé ásetningur og geta og hugsanlega skipulagning hryðjuverka. 

Aukinn viðbúnaður

„Viðbúnaðarstig A er hefðbundinn viðbúnaður skv. verklagsreglum ríkislögreglustjóra frá 2015 um viðbúnaðarstig lögreglu. Tekin hefur verið ákvörðun um að hækka viðbúnaðarstig lögreglu upp í viðbúnaðarstig B sem felur í sér aukinn viðbúnað vegna öryggisógnar. Viðbúnaðarstigin eru fimm, frá A til E.“

Ljósmynd/Lögreglan

Samkvæmt verklagi á viðbúnaðarstigi B hafa sérsveit ríkislögreglustjóra, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, greiningardeild og fjarskiptamiðstöð lögreglu aukið viðbragðsgetu ef til voðaverka kæmi. Þetta felur í sér einföldun á ýmsum verkferlum, nánari samvinnu, aukna mönnun og hraðari viðbragðsgetu.

Nýr fimm stiga kvarði

Gerðar hafa verið breytingar á hættustigum vegna hryðjuverka en breytingarnar tengjast ofangreindum viðbúnaði ekki beint. Breytingin miðar að því að samræma notkun hættustiga á Íslandi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Á Íslandi hefur hingað til verið notaður fjögurra stiga kvarði en frá og með 13. desember 2022 hefur verið tekinn upp nýr fimm stiga kvarði hættustiga þar sem mat er lagt á stöðu mála samkvæmt sömu forsendum og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert