Mikil óvissa ríkir um hvernig veðrið verður á gamlársdagskvöld en samkvæmt spá á vef Veðurstofu Íslands verður breytileg átt á landinu öllu frá 5-15 m/s. Ákvörðun um hvort brennurnar fari fram verður tekin á gamlársdagsmorgun.
Hámarksviðmið á vindhraða var 15 m/s en er nú 10 m/s til þess að brennur megi vera tendraðar.
Einar Skúlason, rekstrarstjóri austurhluta Reykjavíkurborgar, vonast til þess að veðurspáin verði hagstæð enda sé búið að kalla út fjölda fólks til þess að sjá um brennurnar á gamlárskvöld.
„Það eina sem getur komið í veg fyrir að áramótabrennurnar verði haldnar er hvassviðri. Brennur verða ekki tendraðar ef vindhraði er yfir 10 m/s og verður tekin ákvörðun um þetta á samráðsfundi í Skógarhlíð á gamlársdagsmorgun,“ segir Einar.
Mikið púður færi í að færa brennuna og er það sísti kosturinn að sögn Einars en málið er alfarið í höndum sérfræðinga.
„Á fundinum verða m.a. lögregla, slökkvilið og veðurfræðingur þar sem farið verður yfir hvort þetta sé af eða á. Ef ekki verður tendrað í brennunum verður reynt að finna aðra dagsetningu til þess að kveikja í þeim en annars verður timbrið keyrt í burtu og því fargað.“