Fá 2 milljarða í lyfjaþróun

Hákon Hákonarson.
Hákon Hákonarson.

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics (AT) hefur tryggt sér 12,5 milljóna evra fjármögnun, sem svarar til 1,9 milljarða króna, frá nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins. Fjármunirnir verða notaðir til þess að hefja næsta þróunarfasa á nýju lyfi fyrirtækisins við ættgengri íslenskri heilablæðingu. Rannsóknir AT sýna einnig fram á virkni lyfsins gegn heilabilun af öðrum orsökum, þar á meðal alzheimer-sjúkdómnum.

Fjármögnunin er sú stærsta sinnar tegundar sem íslenskt fyrirtæki hefur fengið vilyrði fyrir hjá umræddum sjóði, The European Innovation Council (EIC).

Ívar Hákonarson.
Ívar Hákonarson.

„Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á því að þetta verkefni er byggt á traustum vísindum, og rannsóknaráætlun sem við höfum gert um klíníska þróun á nýju lyfi við íslensku arfgengu heilablæðingunni og tengdum sjúkdómum er vísindalega mjög sterk,“ segir Hákon Hákonarson læknir, stofnandi Arctic Therapeutics, en hann er forstjóri erfðarannsóknamiðstöðvar barnaháskólasjúkrahússins í Fíladelfíu. Hann bætir því við að væntingar um að lyfið virki gegn alzheimer-sjúkdómnum eigi þátt í jákvæðri afgreiðslu.

Áætlað er að hefja klíníska rannsókn á lyfinu við íslensku arfgengu heilblæðingunni um mitt næsta ár og setja það á markað eftir tvö til þrjú ár. Þá taka við rannsóknir á tengdum sjúkdómum í Evrópu. Ef þær ganga vel aukast margfalt líkurnar á að lyfið virki gegn alzheimer.

Mörg þúsund fyrirtæki sóttust eftir stuðningi

Ívar Hákonarson, framkvæmdastjóri AT, segir að ákveðið hafi verið í byrjun ársins að sækja um stuðning evrópska sjóðsins. Umsóknarferlið sé í þremur þrepum og mörg þúsund fyrirtæki hafi sóst eftir stuðningi. Tæplega 1100 fyrirtæki hafi komist í gegnum fyrsta fasann og fengið að skila fullunninni umsókn í haust. Í framhaldinu hafi forsvarsmönnum tæplega fjórðungs þeirra verið boðið í viðtal sem er þriðji og síðasti fasinn. Sjóðsstjórnin hafi síðan ákveðið að styrkja 78 verkefni og AT verið eitt af þeim fyrirtækjum sem fékk mesta stuðninginn, hámarksstyrk og hlutafjárframlag sem er með því hæsta sem sjóðurinn hefur gefið vilyrði fyrir.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert