Fylgjast þarf vel með veðri á gamlárskvöld, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Einar skrifar á veðurvef sinn Bliku að enn ein kalda lægðin virðist vera í uppsiglingu fyrir vestan land á gamlársdag. Hún myndast þegar háloftalægðardrag kemur vestan yfir Grænland á sama tíma og enn ein gusan af heimskautalofti úr norðri hefur náð suður yfir landið.
Einar segir atburðarásina frábrugðna öðrum svipuðum fyrir jól að því leyti að nú megi sjá í kortunum greinilegan fleyg af mildara lofti sem stingst inn í það kalda og því hafi lægðin sem þá myndast alla burði til að dýpka örar og meira.
Líklegast er að lægðin skili einhverjum snjó seinnipartinn á gamlársdag víðast um vestanvert landið og einkum þá austur með suðurströndinni. Óvissubil um það hversu mikið snjóar er hins vegar enn mjög stórt.
Spálíkönum ber ekki saman um dýpt lægðarinnar og segir Einar í færslunni þar muna talsverðu. Veðurspár eigi því mjög sennilega eftir að taka nokkra snúninga fram á föstudag, en vonandi skýrist myndin í tæka tíð svo bregðast megi við með réttum hætti.