Hópferðabifreið var stöðvuð eftir hraðamælingu á 105 km hraða á Reykjanesbraut í hverfi Voga áttunda tímanum í gærkvöldi þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Við skráningu upplýsinga kom í ljós að fyrirtækið sem á bifreiðina hefur ekki rekstrarleyfi fyrir farþegaflutninga. Starfsmaður fyrirtækisins ætlaði að senda leigubifreiðar til að sækja farþegana en leigubifreiðarnar komu ekki og var bifreiðinni því fylgt að næstu lögreglustöð, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um áttaleytið í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í hverfi 104 í Reykjavík þar sem of margir farþegar voru í henni. Bifreiðin er skráð fyrir tvo farþega en þrír voru í henni. Umfram farþeginn var fimm ára barn sem sat í kjöltu móður sinnar og var ekki með neinn öryggisbúnað. Aðilar ætluðu að hringja á leigubifreið.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Grundarhverfi í Mosfellsbæ um hálftíuleytið í gærkvöldi. Ökumaður bifreiðar hafði ekið á bifreið sem á móti kom og stöðvaði ekki við óhappið. Tjónþoli elti bifreiðina og var bifreiðin stöðvuð eftir stutta eftirför af lögreglu í Árbænum.
Sá sem olli tjóninu var handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og/eða lyfja. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Afskipti voru höfð af manni á heimili hans í hverfi 105 í Reykjavík upp úr klukkan níu í gærkvöldi. Maðurinn er grunaður um framleiðslu/ræktun fíkniefna. Lagt var hald á þrjár plöntur ásamt búnaði og skýrsla var rituð.
Á sjötta tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í hverfi 220 í Hafnarfirði þar sem bifreiðin var búin bláum stöðuljósum að framan. Ökumanni var gert að fjarlægja bláu ljósin og skýrsla var rituð.