Veðurstofan hvetur fólk sem þarf að útrétta fyrir áramótin eða ferðast milli landshluta eindregið að gera það á morgun. Veðurspár gera ráð fyrir lægð við landið á gamlársdag með hvassviðri sunnan og vestantil og snjókomu, jafnvel mikilli um tíma á gamlársmorgun.
Í færslu Veðurstofunnar á Facebook er mælt með því að fólk verði sem minnst á ferðinni á meðan að veðrið gengur yfir á gamlársdag.
Veðrið mun færast austur með skafrenningi og snjókomu við suður og suðausturströndina og loks á norðaustanvert landið með éljagangi á gamlárskvöld.
Þá segir að óvíst sé um staðsetningu mestu úrkomunnar en ljóst sé að færð geti spillst hratt í skafrenningi og ofankomu.